Skip to main content
11. apríl 2025

Langar að auðvelda öðrum að bæta líf sitt

Langar að auðvelda öðrum að bæta líf sitt - á vefsíðu Háskóla Íslands

Reynir Grétarsson er í námi í jákvæðri sálfræði hjá Endurmenntun HÍ. Hann er fæddur árið 1972 og alinn upp á Blönduósi. Reynir stundaði framhaldsnám við Menntaskólann á Akureyri og fór svo suður til Reykjavíkur í Háskóla Íslands, þar sem hann lærði lögfræði. Við tókum Reyni tali um námið, lífið og framtíðarsýn hans.

„Ég held að ég sé enn þá að alast upp, hvenær er maður full-orðinn?“ segir hann íhugull. Aðspurður um hvað hafi helst mótað hann í lífinu segir Reynir það ekki hafa verið eitthvað eitt. „Kannski má segja að það sem móti mann mest séu erfiðleikar eða það sem gerist eftir erfiða lífsreynslu. Ég hef átt nokkrar.“

Hvernig myndirðu lýsa þér í nokkrum orðum?

„Mér finnst ég mjög venjulegur strákur. Ábyrgur en stutt í kjánaskap. Ég vil vel en geri stundum mistök.“ Reynir fór á Vog 22 ára og segir að allt sem þar kom á eftir hafa mótað hann mikið. „Ég komst að því að það var ekki nóg að hætta að drekka, það væru einhver undirliggjandi mál sem ég þyrfti að vinna í. Ég hef reynt að vera hugrakkur þegar kemur að sjálfum mér og viðurkenna vanmátt.“

Hvað vakti áhuga þinn á námi í jákvæðri sálfræði og hvað varð til þess að þú sóttir um?

„Dóra (Guðrún Guðmundsdóttir, sem hefur umsjón með náminu), hún er svo mikil fyrirmynd. Ég var búinn að vera mikið í sjálfsvinnu og vildi meiri fræðimennsku í þekkinguna mína. Mig langar að verða betri og grunaði að jákvæð sálfræði gæti hjálpað mér.“

Aðspurður með hvaða væntingar hann fór í námið svarar Reynir því til að geta lært eitthvað sem gæti nýst honum til að eiga sem best líf. Og jafnvel miðla einhverju í kringum sig. „Það sem hefur komið mér mest á óvart hingað til í náminu er hversu hagnýtt það er. Ég er búinn að læra svo margt sem ég hef getað nýtt mér sjálfur, umfram væntingar. Kennararnir hafa samt heillað mig meira en efnið sjálft, það er framsetningin sem skiptir svo miklu máli.“

Ertu kominn með hugmynd að lokaverkefni sem má segja frá?

„Já, ég er að skoða fréttir á vefmiðlum og hvaða áhrif þær eru líklegar til að hafa á þá sem lesa þær. Mig langar svo í framtíðinni að nýta námið og langar að gera eitthvað til að auðvelda öðrum að bæta líf sitt. Setja á fót einhverja þjónustu eða stað í þeim efnum. Fyrst og fremst mun ég þó nota námið fyrir sjálfan mig. En líka kannski miðla einhverju áfram í nærumhverfinu og kannski nota í skrifum.“

Hvernig samfélag er gott samfélag og hvað finnst þér að þurfi að gerast til að auka velsæld hins almenna borgara?

„Umburðarlyndi og kærleikur. Mér finnst samfélagið svo hart, margir reiðir og andstæðar skoðanir sem leyfa ekki málamiðlun. Það er engin miskunn. Efnahagslega mætti vera meiri sanngirni en aðallega þarf hugarfar að breytast. En ég veit ekki mikið, er ekki mikið að fylgjast með stjórnmálum og ýmsum umræðum í samfélaginu, einfaldlega af því að það er ekki gaman.“

Áttu þér einhverja fyrirmynd?

„Á þessu sviði verð ég að segja Dóru Guðrúnu. Ég hef fylgst með henni í langan tíma; hún er að boða það sem ég vil sjá. Reyna að koma með fallegri umræðu og hugsun í menninguna í litla samfélagið okkar.“

Umsóknarfrestur í nám í jákvæðri sálfræði er til og með 15. maí. Hér má finna allar nánari upplýsingar.

Reynir Grétarsson

Reynir Grétarsson er í námi í jákvæðri sálfræði hjá Endurmenntun HÍ.