Landsliðsmaður og laganemi á leið í atvinnumennsku
Maímánuður mun eflaust renna Einari Braga Aðalsteinssyni, handboltamanni og laganema við Háskóla Íslands, seint úr minni. Ekki aðeins var tilkynnt um að hann hefði samið við sænska stórliðið Kristianstad um að leika með því næstu árin heldur lék hann einnig sína fyrstu leiki með íslenska A-landsliðinu í handbolta. Þá varð hann Íslandsmeistari með liði sínu, FH, í gærkvöld. Einar ber laganáminu í HÍ afar vel söguna og hyggst halda því áfram samhliða atvinnumennsku á næstu árum.
„Það var klárt fyrir svolitlu að ég myndi ganga til liðs við Kristianstad og það var gott að koma tilkynningu um það úr vegi en svo kom þetta landsliðsdæmi frekar óvænt upp,“ segir Einar Bragi en hvort tveggja átti sér stað í sömu vikunni. „Það er því óhætt að segja að þetta hafi verið góð vika, ég kláraði prófin líka í þessari viku,” segir Einar Bragi sposkur og bætir við að vikan hafi í senn verið lærdómsrík og skemmtileg.
Einar Bragi hefur í áraraðir verið í hópi efnilegustu handboltamanna landsins. Hann hefur leikið fjölmarga leiki með yngri landsliðum Íslands og vann m.a. brons með 21 árs liði Íslands á heimsmeistaramótinu í fyrra. Aðspurður hvort hann hafi alltaf stefnt á atvinnumennsku í handbolta og að komast í landsliðið játar hann því. „Mér finnst þetta ekki endilega vera einhverjir hlutir sem þú hakar við. Þú vilt auðvitað verða fastamaður í landsliðinu og þarft að halda áfram á hverjum degi til þess að það markmið náist. Í atvinnumennskunni er markmiðið sömuleiðis alltaf að komast lengra og lengra og verða betri og betri í þinni íþrótt en þetta er hvort tveggja bara fyrstu skrefin í löngu ferli,” segir þess jarðbundni afreksmaður um þessi stóru tíðindi.
Valdi lögfræðina því hún átti að vera svo erfið
Einar Bragi vinnur hins vegar ekki bara afrek á handboltavellinum því frammistaðan hans í námi hefur einnig verið afar eftirtektarverð. Hún skilaði honum m.a. ýmsum verðlaunum við útskrift frá Menntaskólanum í Kópavogi, þar á meðal Menntaverðlaunum Háskóla Íslands.
Úr framhaldsskóla lá leiðin í lögfræði í HÍ og aðspurður hvers vegna sú grein hafi orðið fyrir valinu hlær Einar Bragi við og segir: „Ég valdi þetta því mér var sagt að velja þetta ekki því þetta væri svo erfitt! Ég hugsaði bara með mér að ég myndi bara dæma um það sjálfur,“ segir hann.
Einar Bragi bætir við að strax á fyrstu önn hafi áhuginn á greininni kviknað. „Svo var önn númer tvö enn þá skemmtilegri,” segir Einar Bragi sem var að ljúka öðru ári í lögfræði. Hann segist ekki hafa verið með fastmótaða hugmynd um það hvað hann langaði að læra en lögfræðin hafi af einhverjum ástæðum höfðað til hans og hann sé mjög ánægður með þá ákvörðun.
Kennararnir mjög færir og framarlega á sínu sviði
Einar Bragi hefur undanfarin tvö ár leikið með FH í efstu deild handboltans hér á landi og vegna anna á vellinum því ekki verið í fullu námi. „Ég fór í þetta á þeim forsendum að handboltinn væri númer eitt. Það hefði ekki verið neitt mál að vera í fullu námi en ég vildi gera þetta vel og t.d. núna í vor, þegar úrslitakeppnin er í fullum gangi á sama tíma og prófin fara fram, þá sleppi ég því að læra og fer á æfingu eða er að hvíla mig fyrir átök næsta leiks. Á móti kemur að maður hefur mætt alla önnina og sinnt náminu vel og maður býr að því í prófunum og þeim námskeiðum sem maður klárar,“ bendir hann á.
Aðspurður hvað heilli hann vil lögfræðina segir Einar Bragi að honum þyki mjög gaman að mæta í tíma og hitta samnemendur og kennarana. „Kennararnir eru mjög færir og framarlega á sínu sviði á landinu. Mér finnst mjög gaman að komast í tæri við það,“ og nefnir að það sé gaman að pæla í dómsniðurstöðum og röksemdinni á bak við þær. „Það er ekkert allt skemmtilegt en maður leitar í það sem nærir mann í þessu.“
Einar Bragi í leik með FH gegn Aftureldingu. „Þetta er mjög skemmtilegt einvígi, tvö hrikalega öflug lið sem enduðu í 1. og 2. sæti í deildinni í vetur. Ég held að framhaldið verði skemmtilegt og mikilvægt fyrir handboltann að fá gott einvígi upp áhorf og umfjöllun og allt slíkt,“ segir hann.
Í fótspor Guðna Bergssonar
Einar Bragi heldur út til Svíþjóðar í sumar til að leika með stórliðinu Kristianstad en stefnir að því að halda áfram lögfræðinámi samhliða atvinnumennskunni. „Ég er búinn að ræða þann möguleika við fólkið við Lagadeild og fengið jákvæð viðbrögð við því. Námið er þannig uppbyggt að mörg námskeið byggjast á fáum verkefnum og svo stóru lokaprófi og það er hægt að sækja um að taka lokapróf annars staðar en í skólanum,“ bendir Einar Bragi á en slíkt er þá gert undir eftirliti, annaðhvort í erlendum háskóla eða hjá sendiráði eða ræðismanni. „Ég þarf þá bara að reiða mig meira á sjálfan mig og vera duglegur að lesa þar sem ég sæki ekki tíma en það hafa aðrir gert það áður.“
Eitt frægasta dæmið um atvinnuíþróttamann sem hefur lokið lögfræðiprófi frá HÍ er líklega Guðni Bergsson en hann útskrifaðist seint á síðustu öld þegar hann lék með enska knattspyrnuliðinu Bolton Wanderers. „Þannig að maður er ekki að feta ótroðnar slóðir,“ segir Einar Bragi í léttum tón.
Námið uppbyggileg leið til að verja lausum tíma í atvinnumennsku
Aðspurður segist hann munu stilla álagi í námi í takt við álagið í atvinnumennskunni en í lífi atvinnumanna gefst reglulega góður tími til að huga að öðru sem vekur áhuga. „Það er gott að hafa eitthvað að gera samhliða atvinnumennskunni. Þú ert bara að lesa og vinna verkefni og getur gert það hvar sem er. Þetta er þægilegt með íþróttunum og ferðalögunum sem tengjast þeim, að hafa eitthvað uppbyggilegt að gera í stað þess að vera í einhverju heilalausu skrolli í símanum,“ segir Einar Bragi.
Einar Bragi hefur staðið í ströngu undanfarna daga ásamt núverandi liðsfélögum sínum í FH í baráttu við Aftureldingu um Íslandsmeistaratitilinn í handbolta. Vinna þarf þrjá leiki til þess að tryggja sér titilinn og þegar þetta viðtal var tekið var staðan 1-1 í viðureign liðanna. „Þetta er mjög skemmtilegt einvígi, tvö hrikalega öflug lið sem enduðu í 1. og 2. sæti í deildinni í vetur. Ég held að framhaldið verði skemmtilegt og mikilvægt fyrir handboltann að fá gott einvígi upp áhorf og umfjöllun og allt slíkt. Það var gott að ná að jafna þetta í gær og ég hlakka mikið til næstu leikja,” segir laganeminn Einar Bragi sem kvaddi FH-inga í gær með Íslandsmeistaratitli.