Skip to main content
10. október 2024

Kynning á starfsþjálfun Viðskiptafræðideildar

Kynning á starfsþjálfun Viðskiptafræðideildar - á vefsíðu Háskóla Íslands

Viðskiptafræðideild er í samstarfi við um 70 fyrirtæki, stofnanir og ráðuneyti  um starfsþjálfun fyrir nemendur og er því vel tengd atvinnulífinu. Starfsþjálfun Viðskiptafræðideildar er þverfagleg og er ætluð nemendum á þriðja ári í grunnnámi og á öðru ári í meistaranámi. Öllum nemendum Háskóla Íslands er frjálst að sækja um þær stöður sem vekja áhuga þeirra. Mikilvægt er þó að kanna hjá sinni deild hvort starfsþjálfunin sé metin inn í námið.

Á þriðjudaginn var haldinn kynningarfundur fyrir áhugasama nemendur með stjórnendum frá nokkrum af þeim fyrirtækjum sem bjóða upp á starfsþjálfun hjá Viðskiptafræðideild næsta vor. Það voru þau Andrea Lilja Ottósdóttir mannauðsstjóri Coca Cola á Íslandi, Ásta Þyrí Emilsdóttir mannauðsstjóri hjá Deloitte, Baldur Ólafsson, markaðsstjóri Bónus, Birta Líf Ólafsdóttir og Sunneva Eir Einarsdóttir, eigendur Teboðsins, og Sverrir Sigursveinsson, framkvæmdastjóri og eigandi Kontakt. 

Dæmi um þau fyrirtæki sem hafa boðið upp á starfsþjálfunartækifæri.

þau héldu kynningar á þeim möguleikum sem fyrirtækin þeirra bjóða nemendum uppá. Þetta eru þó ekki öll fyrirtæki sem bjóða upp á starfsþjálfun næsta vor, það eru fleiri fyrirtæki sem taka þátt. Hægt er að fá nánari upplýsingar um þær stöður sem eru í boði á starfsþjálfunarsíðu Viðskiptafræðideildar. Umsóknarfrestur er 27. október 2024 fyrir vorönn 2025.

Fjölbreyttur hópur fólks úr atvinnulífinu kynnti starfsþjálfunartækifæri fyrir nemendum á dögunum.