Skip to main content
2. júlí 2024

Kvennabarátta, fríkirkjur og fækkun skírna í Ritröð Guðfræðistofnunar

Kvennabarátta, fríkirkjur og fækkun skírna í Ritröð Guðfræðistofnunar - á vefsíðu Háskóla Íslands

Vorhefti Ritraðar Guðfræðistofnunar kemur nú út um hásumar og eru efnistök fjölbreytt í fimm greinum.

Í grein sinni „„Heldri kona“ beitir sér fyrir auknum réttindum kvenna“ fjallar Arnfríður Guðmundsdóttir, prófessor við Guðfræði- og trúarbragðafræðideild Háskóla Íslands, um Valgerði Jónsdóttur (1863–1913), eiginkonu Þórhalls Bjarnarsonar sem var biskup Íslands frá árinu 1908 til dauðadags 1916. Í greininni beinir Arnfríður sjónum að tengslunum sem greina má á milli kvennabaráttu á Íslandi og kristinnar trúar en Valgerður tók virkan þátt í störfum kvennahreyfinga sem urðu til í kringum aldamótin 1900 og áttu drjúgan þátt í að breyta stöðu kvenna í íslensku samfélagi til frambúðar. Hún fjallar sérstaklega um félagslega stöðu Valgerðar en hún tilheyrði þröngum hópi yfirstéttarkvenna sem nýttu forréttindi sín til að hafa áhrif á samfélagið í anda kvennabaráttunnar. Með ítarlegri umfjöllun sinni um Valgerði gefur Arnfríður ekki aðeins innsýn inn í lífshlaup merkilegrar baráttukonu heldur varpar einnig áhugaverðu ljósi frá félagssögulegu sjónarhorni á þær djúpstæðu samfélags-breytingar sem kvennabaráttan hafði í för með sér.

Hjalti Hugason, prófessor emeritus við Háskóla Íslands, heldur áfram umfjöllun sinni með sinni þriðju grein um lútherska fríkirkjusöfnuði fyrir árið 1915. Greinaflokkur Hjalta er hluti af víðtækum rannsóknum hans síðustu áratugi á þróun trúfrelsis á Íslandi. Í þessari síðustu grein greinaflokksins er sýnt fram á að sambúð þjóðkirkjunnar og hinna nýju fríkirkjusafnaða var almennt á friðsamlegum nótum. Á því voru þó undantekningar eins og Hjalti dregur fram með ítarlegri umfjöllun sinni, bæði um samlífi þjóðkirkjunnar og fríkirkjusafnaða almennt og sérstaklega þó um deilur þar á milli á Austurlandi snemma á tuttugustu öld. Snerust deilur þessar að mestu um Guðmund Ásbjarnarson, forstöðumann fríkirkjusafnaðanna á Austurlandi, en hann þótti, að mati málsmetandi aðila innan þjóðkirkjunnar, seilast um of inn á starfssvið þjóðkirkjupresta sem samkvæmt venjum og hefðum höfðu fram að því einir haft prestsverk með höndum á þeim svæðum sem tilheyrðu sóknum þeirra. Sömuleiðis var hann sakaður um að sinna skýrsluskilum illa. Hjalti setur þennan ágreining í stærra samhengi og bendir á að hann skýrist ekki síst af viðleitni forstöðumannsins til að forðast það að embættismenn þjóðkirkjunnar fengju nokkurn tilsjónarrétt yfir söfnuði hans. Þá verði einnig að hafa í huga ólíkt eðli þjóðkirkjunnar og fríkirkjusafnaðanna en þeim var óeiginlegt að fella starf sitt að landfræðilegum mörkum. 

Í síðustu ritrýndu grein þessa hásumarsheftis Ritraðarinnar fjallar Steinunn Arnþrúður Björnsdóttir, prestur og sjálfstætt starfandi fræðimaður, um nýlegar rannsóknir á tíðni skírna á Norðurlöndunum og Íslandi þar með töldu. Árið 2020 var stofnaður samstarfshópur á vegum þjóðkirkna Norðurlanda sem fékk það verkefni að greina stöðu skírnar í kirkjunum. Markmið hópsins var að skoða stöðu skírnar á öllum sviðum, þar með talið tölfræði, helgi-siði, fræðslu, kynningarmál, guðfræði og félagsfræðilegar rannsóknir. Steinunn Arnþrúður átti sæti í rannsóknarhópnum fyrir Íslands hönd en um er að ræða fyrsta þátt í umfangsmeira rannsóknarverkefni með yfirskriftina Kirkjur á tímum breytinga — Churches in Times of Change.

Í greininni, „Skírnir á breytingaskeiði“, leitar Steinunn Arnþrúður skýringa á þeim breytingum sem orðið hafa á stöðu skírnar á Norðurlöndum en skírnum hefur fækkað mikið, bæði hlutfallslega og tölulega. Þetta á einnig við á Íslandi. Mikill fengur er að grein Steinunnar Arnþrúðar þar eð hún veitir mikilvæga innsýn í þær breytingar sem eiga sér stað á hinu trúarlega landslagi á Íslandi nú um stundir.

Í heftinu er einnig að finna tvær styttri greinar. Annars vegar er um að ræða áhugavert framlag Helga Skúla Kjartanssonar, prófessors emeritusar við Menntavísindasvið Háskóla Íslands, til sögu fermingarfræðslunnar á Íslandi. Í grein sinni fjallar hann um vitnisburð Klettafjallaskáldsins Stephans G. Stephanssonar um fermingarfræðslu á Íslandi eins og hann hafði kynnst henni á sínum tíma, á seinni hluta nítjándu aldar. Helgi Skúli greinir bakgrunn ummælanna og dregur fram að á Norðurlandi hafi fermingarkverið sem þá tíðkaðist hlotið nokkra gagnrýni sem, að mati höfundar, minnir helst á afstöðu danskra vakningarsafnaða. 

Í síðustu greininni fjallar Sigurjón Árni Eyjólfsson héraðsprestur um Gerhard Ebeling, þann guðfræðing sem hafði einna mest áhrif í fræðilegri umræðu um stöðu kirkjusögu innan mótmælendaguðfræði á hinu þýska málsvæði á tuttugustu öld. Þar skiptu einkar miklu máli fyrirlestrar hans sem síðar birtust sem grein undir titlinum: „Kirkjusaga sem útleggingarsaga heilagrar ritningar“ (þ. Kirchengeschichte als Geschichte der Auslegung der Heiligen Schrift). Umliðinn áratug hefur farið fram allnokkur umræða um þær hugmyndir sem Ebeling setti þar fram og þær teknar til endurmats. Í þessari grein gerir Sigurjón Árni grein fyrir framlagi Ebelings og sömuleiðis þeirri fræðilegu umræðu sem farið hefur fram um efnið undanfarið. Saman-tekt Sigurjóns er þakkarvert framlag til fræðilegrar umræðu á Íslandi um mótmælenda-guðfræði á tuttugustu öld enda fór umræðan sem til umfjöllunar er nær alfarið fram á þýsku og því ekki verið mörgum Íslendingum sérlega aðgengileg.

Ritröð Guðfræðistofnunar Háskóla Íslands er gefin út í rafrænu formi.

Valgerður Jónsdóttir (1863–1913). Arnfríður Guðmundsdóttir prófessor ritar grein um tengsl milli kvennabaráttu á Íslandi og kristinnar trúar en Valgerður tók virkan þátt í störfum kvennahreyfinga sem urðu til í kringum aldamótin 1900 og áttu drjúgan þátt í að breyta stöðu kvenna í íslensku samfélagi til frambúðar.