Skip to main content
24. október 2025

Konur telja of hægt ganga en karlar segja nóg gert

Konur telja of hægt ganga en karlar segja nóg gert - á vefsíðu Háskóla Íslands

Í tilefni Kvennafrídagsins birtist grein eftir Ástu Dís Óladóttur, prófessor og stofnanda Rannsóknaseturs um jafnrétti í efnahags- og atvinnulífi, og Þóru H. Christiansen, aðjunkt við Háskóla Íslands, í Viðskiptablaðinu. Þar fjalla þær um niðurstöður könnunar sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands gerði fyrir setrið en hún varpar ljósi á djúpan viðhorfamun kynjanna til jafnréttis í íslensku atvinnulífi.

Könnunin sýnir að þrátt fyrir að Ísland sé í fremstu röð á alþjóðavísu þegar kemur að jafnrétti, er upplifun kynjanna af stöðu jafnréttismála mjög ólík. Samkvæmt niðurstöðunum telja 59% karla að jafnrétti hafi þegar náðst en aðeins 36% kvenna eru sammála þeirri fullyrðingu. Enn fremur segja 73% kvenna að of hægt gangi að jafna kynjahlutföll í efstu stjórnunarstöðum á meðan 41% karla deila þeirri skoðun.

Asta Dis

Ásta Dís Óladóttir og Þóra H. Christiansen.

Í greininni benda Ásta Dís og Þóra á að þessi munur endurspegli bæði kynja- og kynslóðamun þar sem yngra fólk sé gagnrýnna og kalli eftir virkari aðgerðum til að jafna leikinn. Viðhorf til jafnréttis skiptast einnig eftir tekjum, búsetu og stjórnmálaskoðunum og vekur athygli að kjósendur ríkisstjórnarflokkanna, Samfylkingar, Viðreisnar og Flokks fólksins, hafi mjög ólíka sýn á stöðu jafnréttis í íslensku samfélagi.

Ásta Dís segir að þó svo að margt hafi áunnist í jafnréttisbaráttunni á síðustu 50 árum, frá fyrsta Kvennafrídeginum 1975, sé jafnréttisbaráttunni hvergi lokið. „Sumir telja greinilega nóg gert, sérstaklega þegar horft er til opinberra embætta þar sem konur eru nú sýnilegri en nokkru sinni fyrr. Í fyrsta sinn í sögunni leiða konur alla flokka sem mynda ríkisstjórn, í annað sinn situr kona á forsetastóli og við höfum kvenbiskup í annað sinn. Þetta eru mikilvægar táknmyndir framfara og við megum ekki gleyma því“ segir Ásta Dís.

Asta

Rannsóknasetur um janfrétti í efnahags- og atvinnulífi var stofnað fyrr á þessu ári.

„En þegar litið er til atvinnulífsins blasir önnur mynd við. Gögnin sýna að konur eru enn í miklum minnihluta í æðstu stjórnunarstöðum og áhrifastöðum og fólk verður oft hissa þegar ég fer yfir stöðuna eins og hún er í raun og veru. Skoðanir fólks byggjast gjarnan meira á tilfinningu en staðreyndum og það er nákvæmlega þess vegna sem við þurfum að halda áfram að byggja umræðuna á gögnum.”

Greinin byggist á rannsóknum Rannsóknaseturs um jafnrétti í efnahags- og atvinnulífi sem hefur það hlutverk að tengja saman fræðilegar niðurstöður og aðgerðir til að stuðla að jöfnum tækifærum í íslensku atvinnulífi.

Greinin í Viðskiptablaðinu

konur í sal