Kínversk stjórnvöld kynna sér rannsóknir á tekjuskiptingu á Íslandi
Sendinefnd frá DRC (Development Research Center of the State Council) í Kína óskaði nýlega eftir að fá að kynnast rannsóknum Stefáns Ólafssonar, prófessors í félagsfræði við Háskóla Íslands, á þróun og einkennum tekjuskiptingar á Íslandi. Stofnunin DRC heyrir beint undir ríkisstjórn Kína og vinnur að rannsóknum og stefnumótun stjórnvalda á sviðum efnahagslífs og samfélagsþróunar, til lengri og skemmri tíma.
Sendinefndin er hér á landi um þessar mundir og hlýddi á fyrirlestur Stefáns um efnið í Háskóla Íslands í fyrradag. Stefán skrifaði bókina „Ójöfnuður á Íslandi: Skipting tekna og eigna í fjölþjóðlegu samhengi“ ásamt Arnaldi Sölva Kristjánssyni hagfræðingi, sem kom út hjá Háskólaútgáfunni árið 2017.
Gestirnir höfðu mikinn áhuga á þeim lærdómi sem draga má af langtímaþróun tekjuskiptingar hér á landi og hlutverki stjórnvalda í mótun tekjuskiptingarinnar. Sérstaklega var þeim umhugað að skilja hvernig svo mikill jöfnuður náðist á tímabilinu frá um 1945 til um 1995 sem raun ber vitni, sem og hvernig tekjuskiptingin breyttist með mjög auknum ójöfnuði frá 1995 og fram að hruni, og loks hvernig tekjuskiptingin varð aftur tiltölulega jöfn eftir hrun.
Aðilar lýstu áhuga á frekara samstarfi á næstu misserum.