Kíktu á sýninguna um Vigdísi Finnbogadóttur í Loftskeytastöðinni

Sýningin „Ljáðu mér vængi. Ævi og áhrif Vigdísar Finnbogadóttur“ í Loftskeytastöðinni við Suðurgötu er enn í fullum gangi, en frá opnun hennar vorið 2024 hefur fjölbreyttur hópur gesta heimsótt á sýninguna við mikla ánægju.
Á sýningunni er lögð áhersla á að varpa ljósi á uppvöxt Vigdísar, ævi hennar og störf og þau miklu áhrif sem hún hafði í embætti forseta Íslands og þá miklu athygli sem kjör hennar vakti. Meðal annars er fjallað um framlag Vigdísar til náttúruverndar, lista, mannréttindamála, jafnréttismála og til tungumála og menningar bæði hérlendis og á heimsvísu.
Sýningin er bæði opin einstaklingum og hópum, innlendum sem erlendum, sem vilja fræðast um forsetann fyrrverandi. Þá geta kennarar bókað heimsóknir fyrir skólahópa en boðið er upp á skemmtilega og fræðandi leiðsögn ásamt fjölbreyttum smiðjum sem hannaðar eru út frá hugðarefnum Vigdísar Finnbogadóttur.
Áhersla er lögð á að setja fram sögu um ævi og áhrif Vigdísar á lifandi hátt til gagns og gamans fyrir unga sem aldna og á sýningunni má m.a. sjá listmuni, fatnað, bréf, skjöl og ljósmyndir úr fórum Vigdísar.
Almennur opnunartími sýningarinnar í Loftskeytastöðinni er fimmtudaga til laugardaga kl. 13:00–17:00 og er enginn aðgangseyrir fyrir starfsfólk og nemendur Háskóla Íslands.
Upplýsingar um almennan aðgangseyri og hópapantanir má finna á vefsíðu Loftskeytastöðvarinnar.
