Kennarar Háskóla Íslands verðlaunaðir fyrir að umbylta kennsluháttum á undraskömmum tíma
Kennarar Háskóla Íslands og starfsfólk í stjórnsýslu kennslumála hljóta verðlaun Háskóla Íslands sem kennd eru við frumkvæði og forystu og veitt eru á ársfundi skólans fyrir að hafa tekist á undraskömmum tíma að umbylta kennslu við skólann á afar krefjandi tímum vegna kórónuveirufaraldursins. Fulltrúar fræðasviða í kennslumálum og sviðsstjóri kennslusviðs skólans tóku við verðlaununum úr hendi rektors Háskóla Íslands í Hátíðasal skólans í morgun.
Verðlaunin voru veitt í fyrsta sinn á ársfundi skólans í fyrra en markmiðið með þeim er að vekja athygli á hópum eða teymum sem sýnt hafa sérstakt frumkvæði og forystu við uppbyggingu á framúrskarandi starfi innan skólans.
Óhætt er að segja að kennarar og stjórnsýsla kennslumála skólans hafi fengið risavaxið verkefni í fangið þegar stjórnvöld komu á samkomubanni vegna COVID-19-faraldursins um miðjan mars, en það hafði m.a. í för með sér að öllum byggingum skólans var lokað í rúman einn og hálfan mánuð. Því þurfti að færa bókstaflega allt nám, alla kennslu og öll próf og annað námsmat á rafrænt form nánast á einni helgi.
„Þegar almennt samkomubann ríkti í íslensku samfélagi sýndu kennarar og starfsfólk stjórnsýslu Háskóla Íslands alla þá kosti sem þessum verðlaunum er ætlað að hampa. Með dugnaði, ósérhlífni og fagmennsku að vopni fundu kennarar, kennslustjórar, kennsluþróunarstjórar, stjórnendur og annað starfsfólk stoðþjónustu Háskóla Íslands frumlegar leiðir til að bregðast við óvæntum og krefjandi aðstæðum og um leið að standa vörð um gæði þess náms sem Háskólinn býður nemendum sínum upp á,“ segir í rökstuðningi fyrir viðurkenningunni.
Fulltrúar kennslu og kennsluþróunar frá öllum fimm fræðasviðum Háskóla Íslands, þau Ásta Bryndís Schram, lektor og kennsluþróunarstjóri Heilbrigðisvísindasviðs, Margrét Sigrún Sigurðardóttir, lektor og kennsluþróunarstjóri Félagsvísindasviðs, Matthew Whelpton, prófessor og kennsluþróunarstjóri Hugvísindasviðs, Ragný Þóra Guðjohnsen, lektor og formaður kennslunefndar Menntavísindasviðs, Sigdís Ágústsdóttir, kennslustjóri Verkfræði- og náttúruvísindasviðs, og Róbert H. Haraldsson, prófessor og sviðsstjóri kennslusviðs, tóku við verðlaununum fyrir hönd allra kennara og stjórnsýslu kennslumála Háskóla Íslands.
„Við urðum vitni að magnaðri frammistöðu kennara og stoðþjónustu kennslu við Háskóla Íslands þegar samkomubannið skall á 16. mars sl. Nánast eins og hendi væri veifað þurfti að gera alla kennslu rafræna og breyta námsmati í nánast öllum námskeiðum við skólann. Allir lögðu mikið á sig til að láta verkefnið ganga upp og leystu það með miklum sóma við afar erfiðar aðstæður. Ég er þess fullviss að reynslan af þeim breytingum sem við höfum farið í gegnum í tengslum við þennan faraldur mun nýtast okkur til framtíðar,“ segir Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands.