Ísland fullgildur aðili að DARIAH

Í dag verður Ísland fullgildur aðili að DARIAH ERIC – evrópskum rannsóknainnvið sem styður við stafræn hugvísindi og listir. Ákvörðun um aðild Íslands var tekin einróma á aðalfundi DARIAH í byrjun júní. Ísland er þar með aðili að bæði DARIAH og CLARIN og á næstu misserum verður unnið að nánara samstarfi þessara aðila. Logi Einarsson, menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðherra, segir af þessu tilefni: „Til að þróa trausta rannsóknainnviði þarf alþjóðlegt samstarf og DARIAH tryggir nauðsynlegan ramma um þekkingarmiðlun, notkun verkfæra og starfshætti. Við erum stolt af því að styðja við framþróun stafrænna hugvísinda og lista, sem og að styrkja tengsl Íslands við evrópska rannsóknasamfélagið.“
Stafræn hugvísindi á Íslandi
Ísland býr yfir ríkulegum gögnum um íslenska menningu, tungu, sögu og listir og er á meðal stafrænt þróuðustu þjóða heims. Þetta skapar einstök tækifæri til að efla rannsóknir á sviði stafrænna hugvísinda og lista og þróa nýjar aðferðir og samstarfsform – bæði innanlands og alþjóðlega. Þar má nefna ný tækifæri til þátttöku í „borgaralegum rannsóknum“ (citizen science) og til betri miðlunar stafræns menningararfs.
MSHL leiðir verkefnið
Miðstöð stafrænna hugvísinda og lista (MSHL) er landsskrifstofa DARIAH á Íslandi (National Coordinating Institution) og Eiríkur Smári Sigurðarson, rannsóknadósent á Hugvísindasviði og formaður stjórnar MSHL, er verkefnisstjóri (National Coordinator). MSHL var stofnuð árið 2020 sem hluti af Vegvísi um rannsóknainnviði og hefur verið samstarfsaðili DARIAH frá árinu 2022. Miðstöðin hefur vaxið hratt og samanstendur nú af 15 stofnunum og háskólum. Vorið 2025 fékk MSHL framhald á Vegvísi.
Aðild að DARIAH mun hafa áhrif á starfsemi MSHL á næstu árum og verður ríkari áhersla lögð á að gera íslensk gögn og verkfæri aðgengileg í gegnum DARIAH-Campus og SSH Open Marketplace, sem eru alþjóðlegir vettvangar fyrir miðlun gagna, verkfæra og þekkingar, en til þess þurfa gögn og verkfæri að uppfylla alþjóðleg gæðaviðmið.
Sjá einnig frétt DARIAH og frétt á vef menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðuneytisins.
