Skip to main content
6. nóvember 2019

Í hópi þeirra bestu í menntavísindum og félagsvísindum

""

Háskóli Íslands er þriðja árið í röð í hópi 300 bestu háskóla heims á sviði félagsvísinda og kemst í fyrsta sinn á lista þeirra bestu á sviði menntavísinda samkvæmt mati tímaritisins Times Higher Education sem birt var í dag. 

Tímaritið hefur í vel á annan áratug tekið saman lista yfir bestu háskóla heims. Mat ritstins byggist á gögnum og upplýsingum sem varpa ljósi á ýmsa þætti í starfi háskóla um allan heim, svo sem gæði kennslu, rannsóknastarf, áhrif rannsókna viðkomandi háskóla í alþjóðlegu vísindastarfi, námsumhverfi og alþjóðleg tengsl. Ritið hefur enn fremur birt lista yfir bestu háskóla heims á einstökum fræðasviðum undanfarin ár. Þar er horft til ofangreindra þátta en einnig tekið mið af rannsókna- og birtingarhefðum á hverju fræðasviði fyrir sig.

Times Higher Education birtir í dag m.a. lista yfir þá háskóla sem fremst standa á sviði félagsvísinda. Tekið er mið af frammistöðu skóla innan fjölmiðla- og samskiptafræði, stjórnmálafræði og alþjóðasamskipta, félagsfræði og landfræði við matið. Háskóli Íslands er þar í 251.-300. sæti af 720 háskólum sem metnir eru að þessu sinni en þetta er þriðja árið í röð sem hann raðast í þennan flokk.

Þá kemst Háskólinn enn fremur í fyrsta sinn á lista Times Higher Education yfir bestu háskóla heims á sviði menntavísinda, en þar er hann í sæti 301-400 af 477 skólum sem metnir eru. Mat tímaritsins nær til þeirra háskóla sem þykja standa fremst á sviði sviði kennaramenntunar, uppeldis –og menntunarfræða og rannsókna á sviði menntunar. 

Þess má geta að fyrr í haust birti Times Higher Education lista fyrir bestu háskóla heims á sviði hugvísinda og verkfræði og tækni. Háskóli Íslands raðast í hóp 300 bestu á fyrrnefnda fræðasviðinu og er meðal 200 fremstu háskóla heims í verkfræði og tækni. 

Listi Times Higher Education er annar af áhrifamestu og virtustu matslistum heims á þessu sviði. Hinn er er Shanghai-listinn svokallaði en Háskóli Íslands er eini skólinn hér á landi sem kemst á báða þessa lista. 

Fleiri listar yfir bestu háskóla heims á tilteknum fræðasviðum eru væntanlegir frá Times Higher Educations síðar í nóvember.

Nánari upplýsingar um lista tímaritsins yfir þá fremstu á sviði félagsvísinda og menntavísinda má finna á vefsíðu þess.

Félagsvísindi 

Menntavísindi 
 

Stakkahlíð