Í hópi 300 bestu á sviði hugvísinda
Háskóli Íslands er í hópi 300 bestu háskóla heims á sviði hugvísinda samkvæmt nýjum lista tímaritsins Times Higher Education. Skólinn hefur í ár komist á alls níu lista tímaritsins sem taka til frammistöðu háskóla á afmörkuðum fræðasviðum en þeir undirstrika alhliða styrk skólans.
Mat Times Higher Education á bestu háskólum heims í hugvísindum nær til allra helstu greina fræðasviðsins, þ.e. tungumála, bókmennta, málvísinda, sagnfræði, fornleifafræði, heimspeki, guðfræði, arkitektúrs og ýmissa listgreina. Matið tekur mið af alls þrettán þáttum sem snerta starf háskóla, þar á meðal rannsóknum, áhrifum þeirra í alþjóðlegu vísindastarfi, gæðum kennslu og námsumhverfis og alþjóðlegum tengslum. Jafnframt er horft til hefða í rannsóknum og birtingum á umræddum fræðasviðum. Listi Times Higher Education nær til ríflega 600 háskóla víða um heim og sem fyrr segir er Háskólinn í 251.-300. sæti en þar var skólinn einnig í fyrra.
Times Higher Education hefur í mörg ár birt lista yfir fremstu háskóla heims á afmörkuðum fræðasviðum auk lista sem tekur til heildarframmistöðu skólanna. Háskóli Íslands hefur verið á þeim síðarnefnda í áratug og hefur á síðustu árum komist inn á æ fleiri lista sem ná til afmkarkaðra fræðasviða. Í fyrra komst hann í fyrsta sinn á níu lista Times Higher Education og svo er einnig í ár. Slíkt er fjarri því sjálfsagt þar sem samkeppni í alþjóðlegu vísindasamfélagi er gríðarhörð.
Samkvæmt listum Times Higher Education sem birtir hafa verið í haust er Háskóli Íslands í:
- 151.-175. sæti á sviði lífvísinda
- 200.-250. sæti á sviði raunvísinda
- 200.-250. sæti á sviði verkfræði og tækni
- 250.-300. sæti á sviði félagsvísinda
- 250.-300. sæti á sviði sálfræði
- 250.-300. sæti á sviði hugvísinda
- 301.-400. sæti á sviði menntavísinda
- 401.-500. sæti á sviði klínískra heilbrigðisvísinda
- 501.-600. sæti á sviði viðskipta og hagfræði
Þar að auki komst skólinn á 14 lista ShanghaiRanking Consultancy yfir fremstu háskóla heims á afmörkuðum fræðasviðum sem birtir voru fyrr á árinu. Listar Times Higher Education og ShanghaiRanking Consultancy, eða Shanghai-listinn eins og hann er kallaður, eru jafnan taldir áhrifamestu og virtustu matslistar heims á þessu sviði. Háskóli Íslands er einn íslenskra háskóla á þeim báðum.
Þá varð það enn fremur ljóst á dögunum að Háskóli Íslands er í 50. sæti á lista Times Higher Education sem tekur til fremstu háskóla heims í löndum þar sem efnahagslífið er í örri framþróun (The Emerging Economies University Rankings).
Allir þessir listar staðfesta þann þann alhliða styrk sem Háskólinn hefur öðlast í alþjóðlegu vísindasamstarfi á undanförnum tveimur áratugum. Árangurinn hefur lagt grunninn að fjölmörgum samstarfstækifærum við erlenda háskóla, bæði á sviði vísindarannsókna, kennslu og stúdenta- og starfsmannaskipta.
Lista yfir fremstu háskóla heims á sviði hugvísinda má finna á vef Times Higher Education.