Í hópi 200 bestu háskóla heims í verkfræði þriðja árið í röð
Háskóli Íslands er í hópi 200 bestu háskóla heims í verkfræði og tækni samkvæmt nýjum lista timaritsins Times Higher Education. Þetta er þriðja árið í röð sem skólinn raðast svo ofarlega á listann.
Mat Times Higher Education tekur til fjölbreyttra verkfræðigreina, þar á meðal þeirra kennslugreina og rannsókna sem stundaðar eru við Háskóla Íslands. Alls nær útttekt Times Higher Education til 1.008 háskóla sem sinna kennslu og rannsóknum í verkfræði og tækni í heiminum. Við matið horfir Times Higher Education enn fremur til ýmissa þátta í starfi háskóla, m.a. gæða kennslu, rannsóknastarfs, áhrifa rannsókna viðkomandi háskóla í alþjóðlegu vísindastarfi, námsumhverfis og alþjóðlegra tengsla.
Við þetta má bæta að fyrir skemmstu birti tímaritið Times Higher Education heildarlista yfir bestu háskóla heims á sviði hugvísinda. Háskóli Íslands reyndist þar í hópi 300 bestu og er eini íslenski háskólinn sem kemst þar á lista.
Listi Times Higher Education er annar af áhrifamestu og virtustu matslistum heims á þessu sviði. Hinn er Shanghai-listinn svokallaði en Háskóli Íslands er eini skólinn hér á landi sem kemst á báða þessa lista. Þá má geta þess að Háskóli Íslands er í 6. sæti yfir þá háskóla sem fremstir standa í fjarkönnun, sem er vísindagrein sem er nátengd rafmagns- og tölvuverkfræði, á lista ShanghaiRanking Consultancy sem tekur til einstakra fræðigreina.
Von er á fleiri listum frá Times Higher Education yfir fremstu háskóla heims á tilteknum fræðasviðum nú í haust en nánari upplýsingar um lista tímaritsins yfir bestu háskóla heims á sviði verkfræði og tækni má finna á vefsíðu þess.