Hvernig getum við tekið betur á móti flóttafólki?
Magnús Þorkell Bernharðsson, prófessor í sögu Mið-Austurlanda við Williams College í Massachussets, er mörgum að góðu kunnur en hann er oft kallaður til af íslenskum fjölmiðlum til að skýra vendingar í málefnum Mið-Austurlanda. Færri vita að Magnús Þorkell er gestadósent í trúarbragðafræðum við Háskóla Íslands og hann vinnur nú ásamt fleira fræðafólki við HÍ að rannsókn sem miðar að því að bæta móttöku flóttafólks hér á landi.
Í rannsókninni, sem ber heitið „Saman eða sundruð? Menntun og félagsleg þátttaka flóttabarna og ungmenna á Íslandi“, er rýnt í reynslu fólks sem kom hingað sem kvótaflóttafólk á árunum 2015 til 2019, stöðu þess og framgang í íslensku samfélagi. Rannsóknin nær til um 40 fjölskyldna sem fengu skipulagða þjónustu við komuna til landsins, ólíkt öðru flóttafólki sem kemur til landsins á eigin vegum.
Fjöldi innflytjenda hér á landi hefur aukist mikið undanfarin ár og Ísland hefur ekki langa reynslu af því að taka á móti innflytjendum. Margir koma hingað af fúsum og frjálsum vilja en svo eru aðrir sem koma undir öðrum kringumstæðum, bendir Magnús Þorkell á.
Magnús Þorkell er einn helsti sérfræðingur landsins í málefnum Mið-Austurlanda og hlutverk hans í rannsókninni er að skoða bakgrunn flóttafólksins í sögulegu samhengi. Hann skoðar hvers vegna þetta fólk ákvað að flýja land og koma til Íslands ásamt því að rýna í menningar- og sögulegan bakgrunn þeirra. Hann segir að fyrir sagnfræðing skipti sögulegur bakgrunnur miklu máli eins og tungumálið fyrir málfræðing.
Samstarf fræðafólks úr ýmsum greinum
Magnús stjórnar rannsókninni ásamt Hönnu Ragnarsdóttur, prófessor við Menntavísindasvið HÍ. Hanna hafði að sögn Magnúsar frumkvæði að rannsókninni en hún hefur lengi rannsakað stöðu innflytjenda og fjölmenningu á Íslandi.
Með Hönnu og Magnúsi stendur þverfaglegt teymi rannsakenda og doktorsnema að rannsókninni. Það er þau Eyrún María Rúnarsdóttir lektor, Guðbjörg Ottósdóttir dósent, Hermína Gunnþórsdóttir prófessor, Samúel Lefever dósent, Susan Rafik Hama lektor, Lara Wilhelmine Hoffman nýdoktor og doktorsnemarnir Muhammed Emin Kizilkaya, Zulaia Johnston Da Cruz og Hrafnhildur Kvaran. „Með því að hafa svo fjölbreyttan hóp rannsakenda getum við skoðað marga þætti sem hafa áhrif á stöðu og reynslu flóttafólksins,“ segir Magnús.
Hópurinn skoðar hvaða lærdóm megi draga af móttöku flóttafólksins og hvernig stofnanir landsins eru í stakk búnar til að taka við fólki sem er t.d. að flýja stríð í heimalandinu og því ekki endilega að koma hingað af fúsum og frjálsum vilja.
Þurfa að geta treyst rannsakendum
Rannsóknin er eigindleg sem þýðir m.a. að tekin eru viðtöl við flóttafólkið en tveir til þrír rannsakendur fara í hvert viðtal. Í rannsókninni er skoðað hvernig hægt sé að vega og meta reynslu og upplifun fólks sem er í nýju landi, fólks sem er að flýja stríð og ógnarstjórn í sínu heimalandi, fólks sem er með brotið sjálfstraust og treystir ekki stjórnvöldum.
Magnús leggur áherslu á að rannsakendur þurfi að vinna traust viðmælenda þannig að viðtölin verði marktæk vegna þess menningarlega bakgrunns sem flóttafólkið hefur. Rannsakendur þurfi að velta fyrir sér hvernig samskiptin séu, bæði á heimspekilegan og vísindalegan hátt.
„Vegna þess hve hópurinn er lítill þá gefst tækifæri til að skoða hvern einasta flóttamann og rannsaka hann sérstaklega“, segir Magnús. Auk þess að ræða við flóttafólkið sjálft er talað við starfsmenn skólanna sem börnin í hópnum sækja, stuðningsfjölskyldur og starfsfólk Rauða krossins. Þannig er að sögn Magnúsar hægt að koma með afdráttarlausa greiningu á reynslu þeirra og í framhaldinu hægt að nýta niðurstöðurnar til hagsbóta fyrir flóttafólk í framtíðinni.
Niðurstöður nýtast öllu samfélaginu
Rannsakendur eru byrjaðir að taka viðtöl við fólkið sem er búsett víða á landinu. Gert er ráð fyrir að viðtölum ljúki í lok næsta árs og að þá verði byrjað að vinna úr niðurstöðum. Fljótlega á næsta ári verða þó birtar styttri greinar eða fyrirlestrar um stöðu rannsóknarinnar. Eftir þrjú til fjögur ár ættu svo lokaniðurstöður rannsóknarinnar að liggja fyrir.
Magnús segir að fyrir samfélagið í heild sinni sé rannsóknin mikilvæg vegna þess að allt bendi til að flóttamönnum eigi eftir að fjölga um allan heim vegna hlýnunar jarðar, stríða og efnahagsvandamála. Niðurstöður rannsóknarinnar gætu hjálpað til við skipulagningu og mótttöku flóttafólks í framtíðinni. „Sem ábyrgð þjóð í alþjóðasamfélaginu eigum við að taka þátt í að aðstoða fólk sem er í vanda,“ segir Magnús og bætir við að í sögulegu samhengi höfum við Íslendingar notið aðstoðar frá erlendum þjóðum, t.d. í Vestmannaeyjagosinu og eftir seinni heimstyrjöldina.
Höfundur greinar: Eygló Sigurðardóttir, nemi í vefmiðlun.