Hvaða áhrif hafði kórónuveirufaraldurinn á Litháa á Íslandi?
Þótt segja megi að áhrif kórónuveirufaraldursins fari þverrandi hér á landi og víðast hvar í heiminum má reikna með að hann verði viðfangsefni fræðafólks um langt skeið enn. Rýna þarf betur í eftirköst sýkinga sem fólk fæst við, langtímaáhrif faraldursins á líðan fólks og áhrif faraldursins á samfélagið og hina ýmsu hópa þess, svo eitthvað sé nefnt. Goda Cicenaite er ein þeirra sem mun helga sig rannsóknum á því síðastnefnda næstu misserin því í doktorsnámi sínu í hnattrænum fræðum við Háskóla Íslands rýnir hún í reynslu landa sinna af faraldrinum hér á landi.
„Í rannsókninni hyggst ég skoða reynslu bæði farandverkamanna og innflytjenda frá Litháen af COVID-19-faraldrinum hér á landi. Ég hyggst varpa ljósi á hin margþættu áhrif faraldursins á þennan hóp með áherslu á félags- og efnahagslega velferð, mögulega kynþáttun (e. racialization) og tengsl þeirra við heimalandið í faraldrinum. Ég hyggst líka leggja áherslu þá þætti sem höfðu áhrif á ákvarðanir Litháa um bólusetningu gegn COVID-19 og þær upplýsingaveitur sem þeir nýttu í tengslum við faraldurinn,“ segir Goda.
Segja má að faraldurinn sjálfur hafi verið ákveðin kveikja að doktorsverkefninu. „Þegar ég vann að meistaraverkefni mínu í hnattrænum fræðum var ég þegar búin að ákveða að mig langaði að einblína á reynslu Litháa hér á landi í næsta rannsóknarverkefni. Ég var að vinna sem aðstoðarmaður í rannsóknum hjá Kristínu Loftsdóttur, prófessor í mannfræði, og var að taka viðtöl íbúa frá Austur-Evrópu fyrir nokkur verkefni þegar heimsfaraldurinn skall á. Þá varð strax erfiðara að hitta fólk fyrir viðtölin en þeir sem mættu þó fundu hjá sér mikla þörf til að tala um COVID-tengt efni. Þetta var óvissutími og margt að ræða. Stundum sátu Litháar, sem ég tók viðtal við, lengi eftir að viðtalinu lauk til þess að deila reynslu sinni af faraldrinum. Þannig fékk ég upp í hendurnar tækifæri til þess að afmarka betur rannsóknarverkefni mitt í doktorsnámi,” útskýrir Goda sem vinnur verkefnið undir leiðsögn Kristínar Loftsdóttur.
„Niðurstöðurnar má m.a. nýta til að bera saman áhrif faraldursins og bankahrunsins á samfélag Litháa hér á landi, hvernig þeim tekst að taka á við áföll hér á landi og stuðning íslenskra stjórnvalda við innflytjendur á krísutímum. Gögn um félags- og efnahagsleg stöðu farandverkamanna í faraldrinum nýtast enn fremur mjög vel í greiningu á flæði farandverkafólks frá Austur-Evrópu til norrænu ríkjanna, sem breytist mjög hratt,“ segir Goda.
Litháar næststærsti hópur innflytjenda á Íslandi
Um 5.200 Litháar voru búsettir hér á landi um síðustu áramót og teljast þeir því næststærsti hópur innflytjenda hér á landi á eftir Pólverjum. Staða Litháa í íslensku samfélagi hefur hins vegar verið mun minna rannsökuð og það er því ekki að undra að Goda hafi valið að rýna í reynslu þessa stóra hóps. „Ég er sjálf litháísk og auðvitað hef ég áhuga á að öðlast skilning á reynslu litháíska samfélagsins hér. Ég er hins vegar fyrst og fremst undir áhrifum þeirra fjölmörgu rannsókna sem hafa verið gerðar á samfélagi Pólverja hér á landi. Sumar rannsóknir sem gerðar hafa verið meðal Litháa og Pólverja hér benda til þess að þeir deili ákveðinni reynslu en við þurfum hins vegar að skoða það betur í frekari rannsóknum. Þess vegna er markmið rannsóknarinnar einnig að gera Litháa sýnilegri sem hóp hér á landi,“ útskýrir Goda.
Rannsókn Godu byggist á djúpviðtölum við stóran hóp innflytjenda og farandverkamanna frá Litháen á ýmsum stöðum á Íslandi. „Fyrstu 17 viðtölin tók ég á Suður- og Vesturlandi og þau eru hálf-stöðluð sem þýðir að það gefst færi á að ræða og rannsaka viðfangsefni sem koma óvænt upp í samtölunum,” segir Goda sem vinnur nú að fyrstu vísindagreininni sem byggist á rannsókninni.
Að sögn Godu geta niðurstöður rannsóknarinnar nýst með ýmsum hætti auk þess sem þær færa okkur nýja þekkingu um samfélagshóp sem telur nærri 1,5% íbúa landsins. „Niðurstöðurnar má m.a. nýta til að bera saman áhrif faraldursins og bankahrunsins á samfélag Litháa hér á landi, hvernig þeim tekst að taka á við áföll hér á landi og stuðning íslenskra stjórnvalda við innflytjendur á krísutímum. Gögn um félags- og efnahagsleg stöðu farandverkamanna í faraldrinum nýtast enn fremur mjög vel í greiningu á flæði farandverkafólks frá Austur-Evrópu til norrænu ríkjanna, sem breytist mjög hratt,“ segir Goda.
Hún bætir við að niðurstöðurnar geti enn fremur nýst stjórnvöldum, bæði hjá ríki og sveitarfélögum, til þess að varpa ljósi á það hvaða þörfum þarf að sinna til þess að draga úr mögulegum mismunandi áhrifum áfalla, eins og faraldra, á innflytjendur annars vegar og Íslendinga hins vegar. „Að lokum getur greining á bólusetningum og bólusetningarhiki meðal Litháa nýst til þess að koma veg fyrir mögulega upplýsingaóreiðu tengda bólusetningum,“ segir Goda.