Hugvísindaþing 2019
Á Hugvísindaþingi 2019 verður boðið upp á um 150 fyrirlestra í 43 málstofum þar sem fjallað verður um rótgróin rannsóknasvið hugvísinda í bland við mál sem brenna á samtímanum. Umhverfi, ofbeldi, samlíðan, konur, kyngervi, almenningur, fjölskyldan, nýlendur, menntun, efnismenning, Kristur, dýrlingar, barokk, harmleikir, þýðingar, myndlist, kvikmyndir, lýðræði, stjórnarskrá, Sturlunga, Sókrates, íslenskan, töfrar og nostalgía. Allt ber þetta á góma á þinginu í ár – og meira til.
Þingið verður sett í Hátíðasal í Aðalbyggingu Háskóla Íslands föstudaginn 8. mars kl. 12:00 með ávarpi Guðmundar Hálfdanarsonar, forseta Hugvísindasviðs, og hátíðarfyrirlestri Stephen Greenblatt. Hann er prófessor í bókmenntum við Harvard-háskóla og frumkvöðull nýsöguhyggjunnar og hefur hlotið fjölmargar viðurkenningar fyrir störf sín, meðal annars bandarísku bókmenntaverðlaunin fyrir óskálduð skrif árið 2011, Pulitzer-verðlaunin árið 2012 og Holberg-verðlaunin árið 2016. Hann flytur erindi sitt á ensku og nefnist það Survival Strategies: Shakespeare and Renaissance Truth-telling.
Hugvísindaþing var fyrst haldið árið 1996 og hefur verið árviss viðburður frá 1999. Þingið er ætlað fræðasamfélaginu jafnt sem almenningi og er öllum opið.
Verið velkomin!