Hugvísindafólk verðlaunað með Gjöf Jóns Sigurðssonar
Fræðafólk á Hugvísindasviði hlaut nýverið nokkur verðlaun úr sjóðnum Gjöf Jóns Sigurðssonar sem veitir viðurkenningar á tveggja ára fresti fyrir rit sem lúta að sögu Íslands, bókmenntum þess, lögum, stjórn eða framförum.
Í ár voru veitt verðlaun fyrir 23 rit í þremur verðlaunaflokkum. Bókin Ástand Íslands um 1700 hlaut viðurkenningu í fyrsta verðlaunaflokki fyrir vönduð verk sem byggð eru á ítarlegum og umfangsmiklum rannsóknum á sögu og samfélag. Ritstjóri er Guðmundur Jónsson, prófessor við Deild heimspeki, sagnfræði og fornleifafræði við Háskóla Íslands.
Þrjár bækur eftir fræðafólk við Hugvísindasvið hlutu verðlaun í öðrum flokki en í hann falla bækur sem eru merkar heimildir um fjölbreyttar rannsóknir um stjórnmál, trúmál, félagsmál, kvennasögu og dagbókarskrif. Það voru Á sögustöðum eftir Helga Þorláksson, prófessor emerítus í sagnfræði við HÍ, og tvær bækur eftir nýdoktora við Sagnfræðistofnun HÍ, annars vegar Lýðræði í mótun eftir Hrafnkel Frey Lárusson og hins vegar Nú blakta rauðir fánar eftir Skafta Ingimarsson.
Í þriðja flokki voru veitt verðlaun fyrir rit sem spanna vítt svið rannsókna og í honum voru einnig þrjár bækur eftir fræðafólk við Hugvísindasvið. Það voru bækurnar Ég er þinn elskari eftir Erlu Huldu Halldórsdóttur, prófessor í sagnfræði við Deild heimspeki, sagnfræði og forneifafræði HÍ, Rætur Völuspár í ritstjórn Péturs Péturssonar, prófessors emeritus við Guðfræði- og trúarbragðafræðideild HÍ og Þórhalls Eyþórssonar, prófessors við Mála- og menningardeild HÍ og bókin Þú ringlaði karlmaður eftir Rúnar Helga Vignisson, prófessor í ritlist við Íslensku- og menningardeild HÍ.
Lilja Dögg Alfreðsdóttir, þáverandi menningar- og viðskiptaráðherra, afhenti verðlaunin í skrifstofuhúsi Alþingis. Verðlaunanefnd Gjafar Jóns Sigurðssonar er kosin af Alþingi og í henni sitja þau Sigrún Magnúsdóttir, Sólveig Pétursdóttir og Guðmundur Andri Thorsson. Sjá nánar á vefsíðu Stjórnarráðsins.