Hugverkastofan og Háskóli Íslands efla fræðslu og ráðgjöf um hugverkavernd

Hugverkastofan og Háskóli Íslands hafa gert með sér nýjan samstarfssamning sem miðar að því að efla fræðslu, vitund og ráðgjöf tengda hugverkavernd innan háskólans. Borghildur Erlingsdóttir, forstjóri Hugverkastofunnar og Silja Bára R. Ómarsdóttir, rektor Háskóla Íslands, undirrituðu samninginn í Aðalbyggingu HÍ í gær.
Samkvæmt samningnum mun Hugverkastofan veita starfsfólki og stúdentum Háskóla Íslands fræðslu um hugverkavernd, taka þátt í kennslu og skipuleggja sérhæfða viðburði í samvinnu við starfsfólk HÍ. Þá verður a.m.k. einum meistaranema við HÍ boðið starfsnám hjá Hugverkastofunni á hverju misseri og nemendum og starfsfólki skólans tryggður aðgangur að almennri hugverkaráðgjöf án kostnaðar.
„Það er mikilvægt að efla almenna þekkingu á vernd hugverka í samfélaginu til að efla nýsköpun og hagnýtingu rannsókna. Með þessum samningi viljum við tryggja að nemendur og fræðafólk HÍ hafi greiðan aðgang að þekkingu og stuðningi á sviði hugverkaréttar, sem er oft lykilþáttur í að koma góðum hugmyndum í framkvæmd,“ segir Borghildur Erlingsdóttir, forstjóri Hugverkastofunnar.
Silja Bára R. Ómarsdóttir, rektor Háskóla Íslands, undirritaði samninginn fyrir hönd háskólans. „Þekking á því hvernig vernda má þau hugverk sem verða til innan HÍ er mikilvæg þegar kemur að því að nýta uppfinningar sem eru gerðar innan skólans, samfélaginu öllu til hagsbóta. Við erum þess vegna mjög ánægð með þennan samning sem skapar góðan grunn til að byggja á,“ segir Silja Bára.
Nýi samningurinn tekur við af eldri samstarfssamningi milli stofnananna, en felur í sér víðtækari fræðslu og aukinn stuðning við stúdenta og starfsfólk háskólans.
