Skip to main content
31. október 2024

Hlaut dönsk verkalýðssöguverðlaun fyrir doktorsritgerð

Hlaut dönsk verkalýðssöguverðlaun fyrir doktorsritgerð - á vefsíðu Háskóla Íslands

Pontus Järvstad hefur hlotið dönsk verðlaun fyrir verk á sviði verkalýðssögu sem veitt eru af dönsku verkalýðssamtökunum og Verkalýðssafninu. Pontus hlaut verðlaunin fyrir doktorsritgerðina Postwar Mnemonic Anti-Fascism: The Nordic Committees against the Greek Junta, 1967–1974, sem hann varði við Deild heimspeki, sagnfræði og fornleifafræði Háskóla Íslands þann 10. júní síðastliðinn.

Verðlaunin voru veitt við athöfn á verkalýðssöguhátíð í Verkalýðssafninu í Kaupmannahöfn 26. október og var verðlaunaféð 30.000 danskar krónur. Tilgangur verðlaunanna er að hvetja til og efla rannsóknir á sögu og menningu verkafólks og verkalýðshreyfingarinnar meðal nemenda við háskóla.

Pontus Järvstad ver doktorsritgerð sína við Deild heimspeki, sagnfræði og fornleifafræði í Hátíðasal Háskóla Íslands 10. júní síðastliðinn.

Doktorsritgerð Pontusar fjallar um starf þverþjóðlegrar norrænnar félagshreyfingar sem barðist gegn herforingjastjórninni í Grikklandi 1967–1974. Sú pólitíska barátta sem hún háði er greind og fjallað um þær aðgerðir sem hún stóð fyrir. Megináherslan er lögð á andfasíska þætti í starfsemi hreyfingarinnar, sem hafði mun víðtækari áhrif en ráða má af fyrri rannsóknum á pólitískri andstöðu gegn herforingjastjórninni. Á öllum Norðurlöndunum voru stofnaðar nefndir til að berjast fyrir endurheimt lýðræðis í Grikklandi og var litið á aðgerðir þeirra sem framhald á sögulegri baráttu gegn fasisma. Með því að taka slíka afstöðu gengu norrænir stjórnmálamenn og aðgerðasinnar stundum gegn ráðandi hugmyndafræði kalda stríðsins. Í ritgerðinni er því haldið fram að minni hafi gegnt lykilhlutverki í að viðhalda andfasískum frásögnum og endurnýja þær. Í þeim skilningi er ritgerðin framlag til fræðilegra rannsókna á andfasisma þar sem áhersla er lögð á hlutverk sameiginlegs minnis og menningarminnis í starfi pólitískra hreyfinga.

Pontus Järvstad með fulltrúa dómnefndar verðlaunanna, Lars Gaardhøj.