Hlaðvarp félagsfræðinnar skoðar stöðuna á íslenskum fjölmiðlamarkaði
Hlaðvarpsþáttur félagsfræðinnar, Samtal við samfélagið, heldur áfram að vekja verðskuldaða athygli fyrir að veita landsmönnum vandaða fræðilega innsýn í samfélagsumræðu dagsins í dag. Í nýjasta hlaðvarpsþættinum veltir Kjartan Sveinsson, nýdoktor í félagsfræði, upp hlutverki fjölmiðla í lýðræðislegu samfélagi og stöðunni á íslenskum fjölmiðlamarkaði. Hér er um að ræða viðfangsefni félagsfræðinga um áratugaskeið.
Flestir eru sammála um að frjálsir og óháðir fjölmiðlar séu grundvallarforsenda heilbrigðs lýðræðis. Þeir gegna mikilvægu hlutverki í því að borgarar séu meðvitaðir um það sem gerist í samfélagi þeirra, grannskoða og upplýsa um félagsleg, pólitísk og efnahagsleg ferli og veita stjórnmálamönnum og peningavaldi aðhald. Fjölmiðlar eru – eða eiga að vera – spegill á samfélagið sem sýnir okkur sannleikann og blákaldar staðreyndir.
Í hlaðvarpinu leitast Kjartan við að velta upp stöðunni á íslenskum fjölmiðlamarkaði. Eru íslenskir fjölmiðlar frjálsir og óháðir? Eru þeir sá spegill sem lýðræðið krefst? Kjartan ræðir við Ingibjörgu Dögg Kjartansdóttur, ritsjóra Stundarinnar, og Þórð Snæ Júlíusson, ritstjóra Kjarnans, um fjölmiðlalandslagið hér á landi. Í hlaðvarpinu fara þau fara yfir það hvernig hinir ýmsu þættir, svo sem rekstrarumhverfi lítilla og óháðra fjölmiðla, lögsóknir, lögbönn og hótanir, afskipti stjórnmálamanna og samfélagsleg orðræða, hafa áhrif á getu þeirra til að standa undir lýðræðislegu hlutverki sínu.
Samtal við samfélagið er vikulegur þáttur á hlaðvarpi Kjarnans í umsjón kennara í félagsfræði við Háskóla Íslands. Félagsvísindasvið er stolt af þessu þarfa framlagi kennara við námsbraut í félagsfræði sem undirstrikar einskæran áhuga fræðafólks á því að miðla sínum rannsóknum og tengja þær þjóðarpúlsinum.