Skip to main content
9. maí 2025

HÍ tekur þátt í Iceland Innovation Week

HÍ tekur þátt í Iceland Innovation Week - á vefsíðu Háskóla Íslands

Hin árlega Nýsköpunarvika (Iceland Innovation Week) fer fram dagana 12.-16. maí og líkt og áður tekur Háskóli Íslands og tengdir aðilar virkan þátt í henni með viðburðum á háskólasvæðinu.

Nýsköpunarvikan hefur verið haldin hér á landi frá árinu 2020 og Háskóli Íslands hefur verið með frá upphafi enda er nýsköpun einn af grundvallarþáttum í starfi skólans. Undanfarin ár hafa hin árlegu Vísinda- og nýsköpunarverðlaun Háskóla Íslands verið afhent í vikunni og svo er einnig nú. Verðlaunaafhendingin fer fram í Hátíðasal mánudaginn 12. maí kl. 12 en veitt verða verðlaun í fjórum flokkum auk þess sem sigurvegari samkeppninnar verður krýndur. Afhöfnin er opin öllum áhugasömum.

Þriðjudaginn 13. maí kl. 14.15 stendur skólinn fyrir viðburði í Grósku í samstarfi við Auðnu – tæknitorg og fyrirtækið RetinaRisk um vísindalega drifna nýsköpun. Þar verður fjallað um hvernig koma á hugmyndum út af rannsóknastofunni og til notkunar í samfélaginu. RetinaRisk byggist á rannsóknum vísindamanna við HÍ en fyrirtækið hefur þróað hugbúnað í formi áhættureiknivélar sem metur sjálfvirkt áhættu sykursjúks einstaklings á augnsjúkdómum og sjónskerðingu vegna sykursýki. Nánar um viðburðinn hér.

Alla Nýsköpunarvikuna fer svo fram lokalota námskeiðsins Kveikju í Háskóla Íslands en Kveikja er alþjóðlegt nýsköpunarnámskeið sem skólinn stendur að í samstarfi við aðra skóla innan Aurora-háskólanetsins. Þar koma saman tugir nemenda frá Aurora-háskólunum til að vinna saman að samfélagslegum nýsköpunarverkefnum og lausnum við áskorunum samtímans. Þátttakendur í Kveikju munu jafnframt sækja viðburði á vegum Iceland Innovation Week.

Að auki má nefna að föstudaginn 16. maí fagnar Klak 25 ára afmæli en Háskóli Íslands er meðal eigenda og bakhjarla þess. Klak stendur að fjölbreyttum stuðningi og hröðlum fyrir bæði frumkvöðla og er til húsa í Grósku í Vatnsmýri. Afmælishátíð Klak fer fram þar og hefst kl. 17

Dagskrá Iceland Innovation Week í heild sinni má finna á vef vikunnar.

""

Hin árlega Nýsköpunarvika (Iceland Innovation Week) fer fram dagana 12.-16. maí og líkt og áður tekur Háskóli Íslands og tengdir aðilar virkan þátt í henni með viðburðum á háskólasvæðinu. MYND/Kristinn Ingvarsson