HÍ og Þjóðminjasafnið halda áfram öflugu samstarfi
Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, og Margrét Hallgrímsdóttir þjóðminjavörður undirrituðu í sumar nýjan samstarfssamning milli stofnananna um kennslu, starfsþjálfun, rannsóknir og miðlun.
Samningurinn er til fimm ára og tekur við að eldri samningi þessara tveggja stofnana sem hafa um langt skeið átt farsælt samstarf. Það birtist m.a. í því að þjóðminjavörður á sæti á háskólaþingi HÍ og gegnir akademísku gestastarfi við skólann. Ætlunin er að efla samstarfið enn frekar á næstu árum í gegnum fjölbreytt verkefni.
Samningurinn nær til þriggja fræðasviða skólans, Hugvísindasviðs, Félagsvísindasvið og Menntavísindasviðs, og geta kennarar skólans skipulagt námskeið í samvinnu við starfsfólk Þjóðminjasafns sem uppfyllir fagleg skilyrði til kennslu. Þá geta starfsmenn Þjóðminjasafns einnig tekið að sér að leiðbeina nemendum við lokaverkefni og nemendur munu enn fremur geta valið að ljúka starfsnámi hjá Þjóðminjasafni undir leiðsögn starfsmanns þar. Auk þess er ætlunin að kanna möguleika á því að koma á fót sameiginlegum akademískum störfum hjá stofnununum tveimur.
Enn fremur munu samningsaðilar móta sameiginlegar áherslur sem snúa að rannsóknum en þær taka m.a. til öflunar sameiginlegra rannsóknastyrkja og samvinnu um rannsóknir, ráðstefnuhald og málþing.
Auk þess kveður samningurinn á um samstarf um miðlun af ýmsu tagi, þar á meðal útgáfustarf og sýningar, en Þjóðminjasafnið mun m.a. gefa nemendum HÍ, sem vinna að verkefnum í tengslum við safnkost þess, tækifæri til þess að miðla rannsóknum sínum eftir aðstæðum og nánara samkomulagi.
Loks tekur samningurinn til samnýtingar á innviðum stofnananna tveggja. Það felur m.a. í sér að starfsfólk Háskólans getur fengið að aðgang að safnkosti Þjóðminjasafnsins og myndum Ljósmyndasafns Íslands til rannsókna og útgáfu. Á móti fær starfsfólk Þjóðminjasafnsins m.a. aðgang að íþróttahúsi og mötuneytum á háskólasvæðinu á sömu kjörum og starfsfólk HÍ.
Sérstök samstarfsnefnd mun annast málefni samningsins en hana skipa þjóðminjavörður og fulltrúar fræðasviða og námsbrauta innan Háskóla Íslands sem koma að samstarfinu.