HÍ í hópi bestu háskóla Evrópu fyrir frumkvöðla
Háskóli Íslands er í hópi bestu háskóla í Evrópu fyrir verðandi frumkvöðla og þá sem hyggjast leggja fyrir sig nýsköpunarstarf samkvæmt mati danska sprotamiðlunarfyrirtækisins Valuer.
Á lista fyrirtækisins eru alls 45 skólar, einn frá hverju Evrópulandi, sem taldir eru bjóða upp á besta grunnnámið í viðskiptafræði í sínu landi og leggja bæði áherslu á fræðilega og hagnýta þekkingu í náminu. Undirstaðan er sterkur grunnur í viðskiptafræði fyrir fjölþjóðlegt og síhvikt viðskiptalíf en jafnframt áhersla á nýsköpun og frumkvöðlahugsun.
Mat Valuer byggist m.a. á stöðu háskólanna á alþjóðlegum matslistum, gráðum sem skólinn býður upp á og frumkvöðlum í hópi fyrrverandi nemenda skólans. Þrír fyrrverandi nemendur Háskólans eru tilgreindir í umfjöllun Valuer, Hilmar Veigar Pétursson, einn af stofnendum CCP, framleiðanda tölvuleiksins EVE Online, Georg Lúðvíksson, einn af stofnendum Meninga, og Þór Sifgúfsson, stofnandi Sjávarklasans.
Meðal skóla sem rata á lista Valuer, auk Háskóla Íslands, eru Oxford-háskóli í Englandi, Háskólinn í Leuven í Belgíu, Copenhagen Business School í Danmörku, Aalto-háskóli í Finnlandi, Mannheim-háskóli í Þýskalandi, Erasmus-háskólinn í Rotterdam í Hollandi og Háskólinn í Lundi í Svíþjóð.
Fyrirtækið Valuer sérhæfir sig að nýta m.a. gögn og gervigreind til tengja saman frumkvöðla og sprotafyrirtæki við bæði fjárfesta og stórfyrirtæki og starfar m.a. með stórfyrirtækjum á borð við Microsoft. Lista Valuer yfir bestu háskóla Evrópu fyrir frumkvöðla má finna á vef fyrirtækisins.