HÍ í hópi 300 bestu á sviði hugvísinda
Háskóli Íslands er í hópi 300 bestu háskóla heims á sviði hugvísinda þriðja árið í röð. Þetta staðfestir nýr listi tímaritsins Times Higher Education sem var að koma út. Háskóli Íslands er eini íslenski háskólinn á listanum.
Times Higher Education hefur á undanförnum árum bæði birt heildarlista yfir bestu háskóla heims, þvert á fræðasvið, og jafnframt lista á afmörkuðum fræðasviðum, þar á meðal á sviði hugvísinda.
Úttekt Times Higher Education á bestu háskólum heims í hugvísindum tekur til frammistöðu á ýmsum sviðum, m.a. rannsóknastarfs, áhrifa rannsókna viðkomandi háskóla í alþjóðlegu vísindastarfi, gæða kennslu, námsumhverfis og alþjóðlegra tengsla. Jafnframt er tekið tillit til rannsókna- og birtingarhefða á hverju fræðasviði fyrir sig.
Listinn nær til helstu fræðigreina hugvísinda, þ.e. tungumála, bókmennta, málvísinda, sagnfræði, fornleifafræði, heimspeki, guðfræði, arkitektúrs og ýmissa listgreina. Alls eru 536 háskólar á lista Times Higher Education yfir bestu háskóla heims í hugvísindum í ár og raðast Háskóli Íslands í sæti 251-300 sem fyrr segir.
Listi Times Higher Education er annar af áhrifamestu og virtustu matslistum heims á þessu sviði. Hinn er er Shanghai-listinn svokallaði en Háskóli Íslands er eini skólinn hér á landi sem kemst á báða listana í ár.
Von er á fleiri listum frá Times Higher Education yfir fremstu háskóla heims á tilteknum fræðasviðum nú í haust en nánari upplýsingar um lista tímaritsins yfir bestu háskóla heims á sviði hugvísinda má finna á vefsíðu ritsins.