Skip to main content
5. desember 2018

HÍ afhendir Rauða krossinum tölvur fyrir flóttafólk 

""

Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, afhenti í gær fyrir hönd skólans fulltrúum Rauða krossins á Íslandi tíu tölvur sem nýtast munu í margvísleg verkefni félagsins til stuðnings flóttafólki. Við sama tækifæri undirrituðu rektor og Kristín S. Hjálmtýsdóttir, framkvæmdastjóri Rauða krossins, samkomulag um að Háskólinn láti Rauða krossinum árlega í té tölvur sem hætt er að nota í skólanum.

Háskóli Íslands tekur samfélagslegt hlutverk sitt alvarlega og þess sjást merki m.a. í rannsóknum, kennslu og stuðningi við upplýsta umræðu á viðburðum á vegum skólans. Háskólinn hefur átt gott samstarf við Rauða krossinn í þessum efnum, m.a. í fundaröðinni Fræði og fjölmenning fyrir nokkrum misserum en þar var vísindamönnum skólans og fagfólki úr samfélaginu stefnt saman í umræðu um fjölmenningarsamfélagið.

Háskólinn hefur að undanförnu tekið til hliðar bæði borð- og fartölvur sem fallið hafa til við endurnýjun á tölvukosti starfsmanna og í tölvuverum skólans. Upplýsingatæknisvið skólans hefur svo séð um að uppfæra tölvurnar og laga svo þær verði sem nýjar þannig að þær geti nýst áfram í samfélaginu.

Ákveðið var að afhenda Rauða krossinum á Íslandi tölvurnar til notkunar í starfi sínu og tóku fulltrúar félagsins við fyrstu tíu tölvunum í gær. Vonir standa til að þær geti nýst því flóttafólki sem Rauði krossinn vinnur með, t.d. í íslenskunámi, almennu námi og við atvinnu- og húsnæðisleit. 

Við afhendingu tölvanna þakkaði rektor öllu starfsfólki Háskólans sem hefði komið að verkefninu og sagði það njóta hlýhugs og stuðnings fólks um allan háskóla. „Ánægjulegt er að tryggja áframhald verkefnisins með formlegu samkomulagi milli Háskóla Íslands og Rauða krossins. Við munum afhenda fleiri tölvur næsta sumar svo að Rauði krossinn geti nestað fleiri nemendur úr hópi flóttafólks með tölvum í tæka tíð fyrir haustið,“ sagði Jón Atli. 

Kristín S. Hjálmtýsdóttir, framkvæmdastjóri Rauða krossins á Íslandi segir: „Það er afar mikilvægt að stutt sé við nám flóttafólks og ekki síst unga fólksins í þeirra hópi. Mannauður samfélagsins verður meiri og fjölbreyttari með komu flóttafólks og annarra innflytjenda og við þurfum að veita þeim tækifæri til að eflast og blómstra í nýjum heimkynnum. Við erum afar ánægð með þetta samstarf við Háskólann.“

Fulltrúar Háskóla Íslands og Rauða krossins að lokinni afhendingu tölvanna. MYND/Kristinn Ingvarsson
Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, og Kristín S. Hjálmtýsdóttir, framkvæmdastjóri Rauða krossins, handsala samkomulag um að Háskólinn láti Rauða krossinum árlega í té tölvur sem hætt er að nota í skólanum. MYND/Kristinn Ingvarsson