Helgi Áss Grétarsson dósent við Lagadeild hlýtur styrk úr Orkusjóði
Ellefta úthlutun Orkurannsóknarsjóðs Landsvirkjunar fór fram við hátíðlega athöfn fimmtudaginn 8. febrúar sl. Í ár hlutu 32 verkefni á sviði umhverfis- og orkumála styrk og heildarupphæð styrkjanna nam 55,4 milljónum króna. Meðal styrkþega var Helgi Áss Grétarsson, dósent við Lagadeild en hann hlaut 1 milljón króna styrk fyrir verkefnið „Samkeppni og samvinna á raforkumarkaði - lagaleg og pólitísk álitamál“.
Styrknum er ætlað að gera Fjölni Ólafssyni, meistaranema við Lagadeild Háskóla Íslands, kleift að nota sumarið 2018 í að vinna að lokaritgerð sinni. Í henni ætlar Fjölnir að greina ákveðin grundvallaratriði er varða samkeppnisreglur á sviði raforkuréttar. Þannig verður skoðað hvert sé svigrúm aðila á raforkumarkaði til þess að hafa með sér samstarf um ýmis verkefni, t.d. með það að markmiði að vernda sameiginlega hagsmuni allra á markaðnum og stuðla að hagkvæmri nýtingu auðlinda. Slík samvinna takmarkast af ýmsum sérreglum laga á sviði orkuréttar en einnig meginreglum samkeppnislaga, sbr. lög nr. 44/2005.
Um mikilvægt efni er að ræða enda hafa fræðilegar rannsóknir á efninu verið takmarkaðar og lítið fjallað um það í íslenskri réttarframkvæmd, hvort sem litið er til dóma- eða stjórnsýsluframkvæmdar. Helst ber að nefna úrskurði og ákvarðanir Samkeppniseftirlitsins og áfrýjunarnefndar samkeppnismála sem varðað hafa orkumál. Hins vegar liggur fyrir umtalsvert efni á sviði Evrópuréttarins sem birtist bæði í dómaframkvæmd og fræðiskrifum. „Af þessu leiðir að takmarkað fræðilegt efni er til um þessi álitamál á íslensku og er einn helsti tilgangur meistararitgerðarinnar að bæta úr því“, segir Helgi, leiðbeinandi Fjölnis.