Helgarkveðja rektors 13. nóvember
Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, sendi meðfylgjandi orðsendingu til stúdenta og starfsfólks í dag (13. nóvember):
„Kæru nemendur og samstarfsfólk.
Ótvíræð merki eru nú um árangur í baráttunni við COVID-19. Seigla okkar skilar árangri í að ná faraldrinum niður innanlands og erlendis frá berast langþráð tíðindi um bóluefni sem lofa mjög góðu. Þróun bóluefna er vitnisburður um mikilvægi menntunar, vísindarannsókna og samstöðu. Þegar verðmæt þekking margra er lögð saman í rannsóknum geta þær leitt af sér uppgötvanir sem gagnast öllu mannkyninu.
Í vikunni var lokið við að endurskoða próftöflu vegna lokaprófa haustmisseris og eru niðurstöður aðgengilegar ykkur, kæru nemendur, í Uglu. Við blasir að skiptar skoðanir eru um þessa tilhögun en við endurskoðun próftöflu var fyrirmælum heilbrigðisyfirvalda fylgt í hvívetna. Einnig var leitast við að taka tillit til sjónarmiða fræðasviða og nemenda eftir því sem kostur var.
Höfuðáhersla Háskólans hefur og mun ávallt vera sú að tryggja gæði námsmats og jafnræðis nemenda. Þess vegna munu samkeppnispróf og önnur þýðingarmikil próf verða haldin í húsnæði Háskólans, sbr. reglugerð heilbrigðisyfirvalda. Námsmati í langflestum námskeiðum lýkur þó með öðrum hætti en staðprófum í desember, s.s. heimaprófum, hlutaprófum eða verkefnum.
Ýmsar spurningar hafa vaknað hjá nemendum um framkvæmd lokaprófa og höfum við leitast við að svara þeim á COVID-19 síðu skólans. Ég hvet ykkur til að kynna ykkur þau svör og ef þörf krefur leita frekari upplýsinga um tilhögun lokaprófa á fræðasviðum ykkar og í deildum.
Í gær setti Háskóli Íslands af stað nýsköpunarhraðal undir merkjum Academy for Women Enterpreneurs (AWE) í samstarfi við bandarísk stjórnvöld til að efla konur hér til nýsköpunar. Ég hvet konur eindregið til að kynna sér hraðalinn og áhugasamar að sækja um þátttöku. Þá var líka tilkynnt að Háskólinn væri á meðal fyrirtækja og stofnanna sem hljóta viðurkenningu Jafnvægisvogar FKA á þessu ári. Jafnvægisvogin er verkefni Félags kvenna í atvinnulífinu sem miðar að því að hlutfall kvenna í framkvæmdastjórnum fyrirtækja á Íslandi verði a.m.k. fjörutíu prósent árið 2027.
Þessi viðurkenning FKA er ánægulegur vitnisburður um stöðu Háskólans. Jafnrétti er leiðarljós í öllu okkar starfi og grundvöllur þeirrar fjölbreytni sem hér ríkir. Háskóli Íslands er ábyrgur þátttakandi í samfélagi sem stuðlar að jafnrétti, velferð og fjölbreytni og jafnrétti er eitt af þremur gildum í núverandi stefnu skólans. Nú er hafin vinna við nýja stefnu sem unnin er í nánu samráði við allt háskólasamfélagið. Háskólaþing sem hófst í dag er einmitt helgað nýrri stefnu. Að sjálfsögðu verður jafnrétti ein af meginstoðunum í vinnu við nýja stefnu.
Við höfum hagnýtt tækni í rafrænni kennslu á þessu misseri vegna heimsfaraldurs en höfum líka haldið uppi takmörkuðu staðnámi í samræmi við tilmæli heilbrigðisyfirvalda hverju sinni. Þannig höfum við náð að halda náminu í gangi þrátt fyrir gríðarlegar hömlur. Ljóst er að við munum þurfa að hafa sama háttinn á við skipulag kennslu á vormisseri 2021. Öll kennslan verður því í grunninn rafræn en takmarkað staðnám verður að vonum áfram heimilt, t.d. þegar um verklegt nám er að ræða. Fræðasvið og deildir munu á næstu dögum og vikum kynna nánari tilhögun kennslu á næsta vormsseri.
Rafræn tækni hefur komið að gagni við margt annað í starfi skólans en kennslu. Þannig streymdum við frá Háskólatónleikum í vikunni sem tókust einkar vel og fengu mikla athygli. Það kemur ekki á óvart að tónlistin nái til okkar á þeim tímum sem við nú lifum enda segir Keith Richards, tónskáld í Rolling Stones, að tónlistin sé tungumál sem ekki verði tjáð með orðum heldur með tilfinningum.
Leyfum stundum tilfinningum að ráða en verum rökföst og gætum okkar á reiðinni. Sá sem reiðist verður stundum feginn í andartak en eftirsjáin getur varað mjög lengi. Hugum að okkur sjálfum en líka að velferð allra í samfélaginu. Verum tillitssöm og fylgjum áfram reglum um sóttvarnir sem hafa fleytt okkur yfir hjallana sem stundum virtust ókleifir.
Njótum helgarinnar sem best við megum.
Jón Atli Benediktsson, rektor.“