Skip to main content
2. september 2024

Haukur og Iris nýir lektorar við Hugvísindasvið

Haukur og Iris nýir lektorar við Hugvísindasvið - á vefsíðu Háskóla Íslands

Tveir nýir lektorar hafa verið ráðnir við Hugvísindasvið Háskóla Íslands. Haukur Ingvarsson var ráðinn í starf lektors í hagnýtri menningarmiðlun við Deild heimspeki, sagnfræði og fornleifafræði og Iris Edda Nowenstein í íslenskri málfræði og máltækni við Íslensku- og menningardeild.

Haukur Ingvarsson lauk doktorsprófi í íslenskum bókmenntum frá Háskóla Íslands árið 2020. Ári síðar kom doktorsritgerð hans út í endurskoðaðri gerð hjá Sögufélagi undir heitinu Fulltrúi þess besta í bandarískri menningu: Orðspor Williams Faulkners í íslensku menningarlífi 1930-1960. Haukur starfaði sem dagskrárgerðarmaður á Rás 1 um langt skeið samhliða stundakennslu við HÍ, rannsóknum og ritstörfum. Að auki hefur hann unnið fjölbreytt störf á íslenskum menningarvettvangi bæði fyrir fyrirtæki og undanfarin misseri hefur hann þegið styrk úr Nýdoktorasjóði Háskóla Íslands þar sem hann hefur einbeitt sér að þverfaglegum rannsóknum á kalda menningarstríðinu, hlutverki menntamanna, menningarsögu, miðlun og bókmenntum.

Iris Edda Nowenstein lauk doktorsprófi í íslenskri málfræði frá Háskóla Íslands árið 2023 með ritgerðinni Building yourself a variable case system: The acquisition of Icelandic datives. Hún hefur tekið þátt í nokkrum stórum rannsóknarverkefnum og er höfundur að greinum og bókaköflum sem birst á alþjóðlegum vettvangi. Iris Edda hefur sinnt stundakennslu við Háskóla Íslands frá árinu 2011 og kennt þar mörg námskeið á grunn- og framhaldsstigi. Hún hefur þegið styrk úr Nýdoktorasjóði Háskóla Íslands og leiðir um þessar mundir verkefnið Mál, minni og máltækni sem styrkt er af Samstarfssjóði háskólanna innan Íslensku- og máltæknikjarna.

Iris Edda Nowenstein og Haukur Ingvarsson.