Skip to main content
15. maí 2019

Háskólinn og Reykjavíkurborg treysta samstarf sitt

Háskólinn og Reykjavíkurborg treysta samstarf sitt - á vefsíðu Háskóla Íslands

Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, Kolbrún Þ. Pálsdóttir, forseti Menntavísindasviðs, Helgi Grímsson, sviðsstjóri skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar, og Skúli Helgason, formaður skóla- og frístundaráðs, undirrituðu á dögunum nýjan samstarfssamning milli Háskólans og borgarinnar. Samningurinn nær til þriggja ára og felur í sér aukin tækifæri til starfsþróunar og nýsköpunar í skóla- og frístundastarfi. 

Meginmarkmið með samstarfinu er að byggja upp öflugt lærdómssamfélag, teymishugsun og hringferli stöðugra umbóta í skóla- og frístundastarfi. Samstarfið felst enn fremur í samvinnu um námskeiðahald, leiðsögn, ráðgjöf og rannsóknir. Starfið grundvallast á Menntastefnu Reykjavíkurborgar sem samþykkt var á síðasta ári í þeim tilgangi að ná víðtækri samstöðu um framtíðaráherslur í skóla- og frístundastarfi og skerpa forgangsröðun umbótaverkefna.  

Samkvæmt samningnum verða afurðir samstarfsins fyrst og fremst margþætt námskeið og fræðsla fyrir starfsfólk í skóla- og frístundastarfi Reykjavíkurborgar. Samningsaðilar koma báðir að vinnu við hugmyndasmíði og undirbúning fræðslunnar og leitað verður til sérfræðinga eftir því sem við á til að móta verkefnin.

Kolbrún Þ. Pálsdóttir, forseti Menntavísindasviðs, kveðst hafa miklar væntingar til samstarfsins. „Samningurinn er mikilvægur liður í því að styðja við og efla aðkomu fræðasamfélagsins að þróun og nýsköpun á sviði menntunar. Markmiðið er að skapa vettvang þar sem fræðimenn, kennarar og fagfólk innan menntakerfisins vinna saman að því að þróa starfshætti og skapa öllum börnum hvetjandi námsumhverfi. Þannig verður til dýrmætt lærdómssamfélag þar sem aðilar deila reynslu, þekkingu og hugmyndum til góðs. Ég efast ekki um að það mun skila sér í öflugri menntun og menntarannsóknum, bæði innan Háskólans og borgarinnar.“

Samningurinn var undirritaður á Vorblóti Menntavísindasviðs Háskóla Íslands og Skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar 13. maí 2019 að viðstöddu fjölmenni.
 

Við undirritun samstarfssamning Háskóla Íslands og Reykajvíkurborgar 13. maí síðastliðinn. Á myndinni eru frá vinstri. Kolbrún Þ. Pálsdóttir, forseti Menntavísidindasviðs, Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, Skúli Helgason, formaður skóla- og frístundaráðs, og , Helgi Grímsson, sviðsstjóri skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar. MYND/ Kristinn Ingvarsson