Skip to main content
30. júní 2025

Háskóli Íslands flytur ofurtölvu í húsnæði Veðurstofunnar

Háskóli Íslands flytur ofurtölvu í húsnæði Veðurstofunnar - á vefsíðu Háskóla Íslands

Háskóli Íslands hefur fært hluta af tölvusal sínum í húsnæði Veðurstofu Íslands. Um er að ræða tölvubúnað IREI, Icelandic Research e-Infrastructure sem fjármagnaður er af vegvísi um rannsóknainnviði Innviðasjóðs Rannís. IREI styður rannsóknir vísindafólks frá háskólum og 
rannsóknastofnunum um allt land, meðal annars á sviðum loftslagsmála, náttúruvár, gagnavísinda og heilbrigðisvísinda. 

Samrekstur tölvusalarins er liður í öflugu samstarfi Háskóla Íslands og Veðurstofunnar sem byggir á sameiginlegri sýn um að efla innviði fyrir rannsóknir og samfélagslega þjónustu, meðal annars með áherslu á loftslagsmál, náttúruvá og alþjóðlegt vísindasamstarf. 

Við formlega opnun tölvusalsins fluttu ávörp Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, og Hildigunnur H. H. Thorsteinsson, forstjóri Veðurstofu Íslands. Í máli þeirra beggja kom fram að samvinna stofnananna væri lykill að því að tryggja trausta og öfluga innviði fyrir útreikninga og gagnavinnslu sem nýtist samfélaginu í heild. 

Jón Atli þakkaði Veðurstofunni fyrir að hýsa tölvusalinn og fyrir frábært samstarf í gegnum tíðina. Nefndi hann að samstarfsfletir HÍ og Veðurstofunnar væru mjög margir, meðal annars í IREI. Þörfin fyrir IREI er mikil á Íslandi þar sem kröfurnar í vísindastarfi um mikla reiknigetu og geymslur fyrir stór gagnasöfn aukast sífellt. 

Hildigunnur lagði sérstaka áherslu á að þessir innviðir væru forsenda þess að Veðurstofan geti sinnt sínu lögbundna hlutverki í spám og viðvörunum vegna náttúruvár eins og flóða og eldgosa, auk þess sem þeir styrki rannsóknir á loftslagsbreytingum og áhrifum þeirra á Íslandi. 
„Með því að efla þessa innviði stöndum við betur að vígi í rannsóknum og þróun á veðurspám og viðvörunum vegna eldgosa, jarðskjálfta og flóða sem og á fjölda annarra sviða sem snerta öryggi, viðbúnað og áfallaþol íslensks samfélags,“ sagði Hildigunnur H. H. Thorsteinsson, forstjóri Veðurstofu Íslands. 
 
IREI byggir á fjórum meginþáttum þjónustu: 

  • Ráðgjöf og sérfræðiaðstoð fyrir rannsóknarhópa 
  • Öflug og örugg gagnageymsla 
  • Aðgangur að mikilli reiknigetu og ofurtölvum 
  • Lausnir sem styðja gagnadeilingu og samstarf, bæði innanlands og á alþjóðavettvangi 
Fulltrúar Háskóla Íslands kynna sér tölvusalinn á Veðurstofunni. MYND/Kristinn Ingvarsson
Fulltrúar Háskóla Íslands í heimsókninni.
Guðmundur Kjærnestend, sviðsstjóri Upplýsingatæknisviðs, fer yfir þýðingu IREI.
Fulltrúar og Hí og Veðurstofunnar hittust í húsakynnum Veðurstofunnar til að ræða samstarf og þýðingu hins nýja tölvusalar.
Hildigunnur H. H. Thorsteinsson, forstjóri Veðurstofu Íslands, ávarpar gesti.
Jón Atli
Fulltrúar Upplýsingatæknisviðs HÍ í húsakynnum Veðurstofunnar.