Háskóli Íslands á átta listum THE yfir bestu háskóla heims
Háskóli Íslands er í 126.-150. sæti yfir bestu háskóla heims á sviði lífvísinda og í hópi 250 bestu á sviði raunvísinda samkvæmt nýjum listum sem tímaritið Times Higher Education birti í morgun. Þeir sýna enn fremur að skólinn er í 250.-300. sæti á sviði sálfræði og í hópi 500 bestu innan klínískra heilbrigðisvísinda. Háskóli Íslands hefur aldrei komist á jafnmarga lista tímaritsins yfir bestu skóla heims á afmörkuðum fræðasviðum, eða alls átta talsins.
Times Higher Education hefur í allt haust birt lista yfir bestu háskóla heims á tilteknum fræðasviðum en einnig lista sem tekur til heildarstarfs skóla. Mat tímaritsins á frammistöðu háskóla byggist í öllum tilvikum á þrettán þáttum í starfi skólanna, m.a. rannsóknastarfi, áhrifum rannsókna viðkomandi háskóla í alþjóðlegu vísindastarfi, gæðum kennslu, námsumhverfi og alþjóðlegum tengslum. Jafnframt er tekið tillit til rannsókna- og birtingarhefða á hverju fræðasviði fyrir sig.
Times Higher Education birti í morgun fjóra síðustu lista sína yfir fremstu háskóla heims á tilteknum fræðasviðum, þ.e. á sviði lífvísinda, raunvísinda, klínskra heilbrigðisvísinda og sálfræði.
Við mat á fremstu háskólum heims á sviði lífvísinda er horft til frammistöðu skólanna á jafn fjölbreyttum fræðasviðum og líffræði, íþrótta- og heilsufræði, landbúnaðarvísinda og dýralæknisfræði. Rúmlega 820 háskólar komast á lista Times Higher Education á svið lífvísinda í ár og sem fyrr segir er háskólinn í sæti 126-150, en þar var hann einnig í fyrra.
Frammistaða háskólans á sviði raunvísinda er metin út frá árangri í stærðfræði, tölfræði, eðlisfræði, stjarneðlisfræði og efnafræði en einnig jarðvísindum, umhverfisfræði og haffræði. Innan þessara fræðasviða er háskólinn í hópi þeirra 250 bestu en 1054 háskólar eru metnir að þessu sinni.
Háskólinn er enn fremur í annað sinn á lista yfir þá fremstu á sviði sálfræði og hækkar sig þar milli ára, úr sætum 301-400 í 251.-300. sæti. Alls eru tæplega 500 háskólar á listanum sem tengist sálfræði í ár.
Til klínískra heilbrigðisvísinda (e. clinical, pre-clinical and health) samkvæmt Times Higher Education teljast læknisfræði, tannlæknisfræði og heilsa og tekur listi tímaritsins til 775 háskóla sem starfa á þessum sviðum. Þar raðast Háskóli Íslands í sæti 401-500.
Auk þess að vera á lista Times Higher Education yfir bestu háskóla heims á ofangreindum sviðum leiða fyrri listar tímaritsins frá því í haust í ljós að skólinn er í:
• 151.-200. sæti á sviði verkfræði og tækni
• 251.-300. sæti á sviði félagsvísinda
• 251.-300. sæti á sviði hugvísinda
• 301.-400. sæti á sviði menntavísinda
„Þetta er stórkostlegur árangur fyrir Háskóla Íslands. Öll fræðasvið skólans mælast í fremstu röð samkvæmt mati Times Higher Education. Niðurstaðan er glæsileg viðurkenning á starfi Háskóla Íslands og mikil hvatning til starfsfólks og nemenda skólans. Árangurinn hefur aldrei verið betri. Ég hvet stjórnvöld til að halda áfram að efla skólann og auka þannig samkeppnishæfni Íslands. Fjárfesting í háskólamenntun er fjárfesting í framtíðinni,“ segir Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands.
Listi Times Higher Education er annar af áhrifamestu og virtustu matslistum heims á þessu sviði. Hinn er Shanghai-listinn svokallaði en Háskóli Íslands er eini skólinn hér á landi sem kemst á báða þessa lista.
Nánari upplýsingar um lista Times Higher Education yfir fremstu háskóla heims á sviði lífvísinda, raunvísinda, sálfræði og klínískra heilbrigðisvísinda má finna á vefsíðu tímaritsins.