Háskólaráð tilnefnir dr. Silju Báru R. Ómarsdóttur í embætti rektors

Háskólaráð samþykkti á fundi sínum í gær að tilnefna dr. Silju Báru R. Ómarsdóttur, prófessor við Stjórnmálafræðideild, í embætti rektors Háskóla Íslands til næstu fimm ára frá 1. júlí næstkomandi.
Silja Bára var kjörin rektor Háskóla Íslands í almennri kosningu starfsmanna og stúdenta við skólann sem fram fór í tveimur umferðum dagana 18.-19. og 26.-27. mars sl. Hún var meðal átta umsækjenda um embættið sem voru í kjöri en embættið var auglýst laust til umsóknar í janúar síðastliðnum.
Háskólaráð fjallaði um kosningarnar á fundi sínum í gær og samþykkti að rita menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðherra bréf og tilnefna Silju Báru R. Ómarsdóttur sem rektor Háskóla Íslands fyrir tímabilið 1. júlí 2025 til 30. júní 2030.
Um Silju Báru R. Ómarsdóttur
Silja Bára R. Ómarsdóttir er þrítugasta manneskjan til að gegna embætti rektors frá því að Háskóli Íslands tók til starfa árið 1911 og önnur konan.
Silja Bára brautskráðist með BA-próf í alþjóðasamskiptum frá Lewis & Clark College í Bandaríkjunum árið 1995 og MA-próf í sömu grein frá University of Southern California árið 1998. Hún lauk doktorsprófi í stjórnmálafræði frá University College Cork á Írlandi árið 2018 og hlaut viðurkenningu Félags stjórnmálafræðinga á Írlandi það ár fyrir bestu doktorsritgerðina við írskan háskóla. Að auki hefur Silja Bára lokið diplómanámi á framhaldsstigi í aðferðafræði félagsvísinda og kennslufræði háskóla frá Háskóla Íslands.
Silja Bára er prófessor í alþjóðasamskiptum við Stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands. Hún hóf störf við Háskóla Íslands sem stundakennari og aðjunkt árið 2005 og á árunum 2006-2008 gegndi hún jafnframt stöðu forstöðumanns Alþjóðamálastofnunar skólans. Hún var ráðin lektor við Stjórnmálafræðideild árið 2018 og fékk í framhaldinu framgang í stöðu dósents en hefur verið prófessor frá árinu 2020.
Jón Atli Benediktsson rektor tók á móti Silju Báru R. Ómarsdóttur á rektorsskrifstofu í vikunni og færði henni hamingjuóskir með kjörið. MYND/Kristinn Ingvarsson

Silja Bára hefur lagt stund á rannsóknir á sviði utanríkis- og öryggismála, kyn- og frjósemisréttinda og femínískra alþjóðasamskipta. Bók hennar og Steinunnar Rögnvaldsdóttur, Rof – frásagnir kvenna af fóstureyðingum, hlaut tilnefningar til Fjöruverðlaunanna og verðlauna Hagþenkis. Hún var m.a. valin til þátttöku í Fulbright Arctic Initiative III (FAI), flaggskipi Fulbright á sviði norðurskautsrannsókna, árið 2020. Þá hefur hún verið rannsóknarstjóri Höfða - friðarseturs Reykjavíkurborgar og Háskóla Íslands og er í fyrsta íslenska teyminu til að ritstýra tímaritinu Scandinavian Political Studies.
Silja Bára er meðlimur í Kennsluakademíu opinberu háskólanna og hlaut viðurkenningu Háskóla Íslands fyrir lofsvert framlag til kennslu árið 2019. Hún hefur komið að kennslu á öllum fimm fræðasviðum skólans og hefur enn fremur leiðbeint nærri 250 nemum í lokaritgerðum á grunn- og framhaldsstigi, þar með talið doktorsnemum og nýdoktorum.
Silja Bára hefur átt sæti í háskólaráði frá árinu 2022 sem fulltrúi háskólasamfélagsins. Hún hefur enn fremur gegnt ýmsum trúnaðarstörfum utan HÍ. Hún er sem stendur formaður Rauða krossins á Íslandi og var síðasti formaður Jafnréttisráðs á árunum 2019-2021. Silja Bára hefur enn fremur undanfarið tekið þátt í Global Community for Women's Leadership, alþjóðlegri áætlun sem miðar að því að þjálfa og styðja nýja kynslóð kvenleiðtoga í heiminum til frekari afreka. Hún var í hópi 50 kvenna víða að úr heiminum sem var í fyrra boðið að taka þátt í áætluninni sem óhagnaðardrifnu samtökin Institute of International Education (IIE) standa að.
Háskólaráð samþykkti á fundi sínum í gær að tilnefna dr. Silju Báru R. Ómarsdóttur, prófessor við Stjórnmálafræðideild, í embætti rektors Háskóla Íslands til næstu fimm ára frá 1. júlí næstkomandi. MYND/Kristinn Ingvarsson