Skip to main content
28. ágúst 2024

Háskólalestin í Sandgerði um helgina  

Háskólalestin í Sandgerði um helgina   - á vefsíðu Háskóla Íslands

Háskólalestin heimsækir Sandgerði dagana 29.- 31. ágúst þar sem áhöfnin býður upp á fjölbreytt námskeið fyrir elstu bekki grunnskólans, smiðjur fyrir grunnskólakennara og opið vísindahús í Sandgerðisskóla fyrir fólk á öllum aldri. 
 
Þetta er þriðja ferð Háskólalestarinnar á þessu ári en í vor heimsótti lestin Höfn í Hornfirði og Húsavík. Lestin hefur ferðast um landið frá árinu 2011 og lagt áherslu á að kynna vísindi á lifandi og fjölbreyttan hátt, styðja við starf grunnskólanna og efla tengsl HÍ við landsbyggðina. Í áhöfn lestarinnar eru kennarar og nemendur við Háskóla Íslands, sem margir hverjir eru líka leiðbeinendur í verðalunaverkefnunum Vísindasmiðju HÍ og Háskóla unga fólksins. 
 
Heimsókn Háskólalestarinnar til Sandgerðis hefst með kennarasmiðjum um gervigreind og tækjaforritun í Sandgerðisskóla fimmtudaginn 29. ágúst. Daginn eftir bjóða kennarar lestarinnar upp á fjölbreytt og spennandi námskeið fyrir nemendur í 6., 7., 9. og 10. bekk Sandgerðisskóla. Þar geta nemendur valið á milli námskeiða í skurðlækningum, blaða- og fréttamennsku, efnafræði, japönskum fræðum, gervigreind, íþrótta- og heilsufræði, tækjaforritun, stjörnufræði og sjúkraþjálfun.  
 
Laugardaginn 31. ágúst er svo komið að opnu vísindahúsi í sal Sandgerðisskóla milli kl. 14-16. Það er opið ungum sem öldnum og þar gefst færi á að kynnast undrum vísindanna með gagnvirkum og lifandi hætti. Þar verður til að mynda hægt að kanna stökkkraftinn, taka fréttaviðtöl, sauma í gervihúð, skoða forritaðar fígúrur og ef vel viðrar kíkja upp í himingeiminn með Sævari Helga. Þá verður hægt að prufa tól og tæki sjúkraþjálfara, skrifa japönsk tákn, kanna undraheima gervigreindar og horfa á spennandi efnafræðitilraunir Sprengju-Kötu.  

Opna vísindahúsið er hluti af Vitadögum í Suðurnesjabæ og öll eru hjartanlega velkomin. Það er alveg ókeypis – ekkert að bóka – bara að mæta! 
     
Háskólestin hefur heimsótt hátt á fjórða tug áfangastaða um allt land frá upphafi og fengið einstaklega hlýjar móttökur hvert sem komið er. Hægt verður að fylgjast með lestinni á vef hennar og á Facebook-síðu lestarinnar
 

Gestir í Háskólalestinni og meðlimur úr áhöfn