Skip to main content
30. nóvember 2020

Handleiðsla til eflingar í starfi

Handleiðsla til eflingar í starfi - á vefsíðu Háskóla Íslands

Út er komin bókin Handleiðsla til eflingar í starf hjá Háskólaútgáfunni og RBF, Rannsóknasetri í barna- og fjölskylduvernd. 

Bókin er fyrsta sinnar tegundar á íslensku og fjallar um fjölbreyttar hliðar handleiðsluferlisins, samskipta og stjórnunar með áherslu á forvarnargildi handleiðslu gegn stöðunun og starfsþroti. Í bókinni er einnig fjallað um gagnreyndar aðferðir í faghandleiðslu og hvernig handleiðarar geta veitt öðrum styrk og eflt frumkvæði þeirra og færni. Bókinni er ætlað að bæta úr brýnni þörf fyrir fræðirit á sviði faghandleiðslu og getur nýst fagfólki, háskólanemum, yfirmönnum og stjórnendum stofnanna og fyrirtækja.

Faghandleiðsla varðar þróunarferil og þroska fagmanns þar sem markmiðið er að hann öðlist hæfni og matsfærni og nái fullum tökum á faglegum viðfangsefnum með því að beita gagnreyndum aðferðum. Handleiðsla eykur seiglu og vitund um mörk til að geta aðgreint starf og einkalíf og varist ofurkröfum. Á fullnaðarstigi fagþroskans getur handleiðari veitt öðrum styrk og eflt frumkvæði þeirra og færni. Þannig stuðlar hann að valdeflingu og starfsgleði fagmannsins.

17 sérfræðingar úr ólíkum faghópum um handleiðslu innan velferðarþjónustu og vinnumarkaðar eru höfundar kaflanna í bókinni en henni er ritstýrt af Dr. Sigrúnu Júlíusdóttur, prófessor emeritus við Félagsráðgjafardeild Háskóla Íslands.
 

"Dr. Sigrún Júlíusdóttir, prófessor emeritus við Félagsráðgjafardeild"