Gylfi Magnússon nýr forseti Viðskiptafræðideildar
Gylfi Magnússon, dósent við Háskóla Íslands, hefur verið kjörinn forseti Viðskiptafræðideildar árin 2020-2022 og tekur við starfinu 1. júlí nk. af Inga Rúnari Eðvarðssyni.
Gylfi hefur starfað við Viðskiptafræðideild frá árinu 1996, fyrst sem stundakennari, aðjúnkt frá 1997 til 1998 og dósent frá 1. október 1998. Hann var formaður Viðskiptaskorar Háskóla Íslands árin 2000-2004 og forseti Viðskipta- og hagfræðideildar 2004-2006.
Gylfi hefur gegnt margvíslegum stjórnunar- og nefndarstörfum í gegnum tíðina og var viðskiptaráðherra og síðar efnahags- og viðskiptaráðherra frá febrúar 2009 til september 2010.
Hann útskrifaðist með stúdentspróf frá Menntaskólanum í Reykjavík 1986, cand. oecon. frá Viðskipta- og hagfræðideild Háskóla Íslands 1990, M.A. í hagfræði frá Yale University 1991 og M.Phil. frá sama skóla 1994. Doktorspróf frá Yale 1997. Sérsvið Gylfa eru einkum fjármál og rekstrarhagfræði, en hann hefur einnig stundað rannsóknir og sinnt kennslu á fleiri sviðum innan hagfræði.
Nýr varaforseti deildarinnar frá sama tíma verður Erla Sólveig Kristjánsdóttir, dósent. Hún er með doktorspróf í alþjóðasamskiptum frá Arizona State University og hefur starfað við Viðskiptafræðideild frá árinu 2013.