Gyða Hlín Björnsdóttir nýr markaðsstjóri
Gyða Hlín Björnsdóttir hefur verið ráðin markaðs- og kynningarstjóri Viðskiptafræðideildar Háskóla Íslands.
Víðtæk reynsla Gyðu af markaðs- og rekstrarmálum bæði innan háskólans og á almennum vinnumarkaði mun nýtast deildinni vel, en hún hefur yfir 12 ára starfsreynslu á þessu sviði. Hún lauk MBA námi við Háskóla Íslands árið 2014 og Markaðssamskiptum við Háskólann á Bifröst árið 2012. Gyða situr í stjórn Stjórnvísi auk þess að vera í stjórn í sjávarútvegsfyrirtækinu Valafelli ehf. Gyða er 38 ára gömul og er gift Georg Andersen. Þau eiga samtals fimm börn á aldrinum 10 til 21 árs.
Að sögn Inga Rúnar Eðvarðssonar deildarforseta Viðskiptafræðideildar er ráðning Gyðu liður í að efla enn betur samstarf deildarinnar við atvinnulífið enda ein af fjölmennustu deildum Háskólans og munu verkefni Gyðu verða m.a. að móta markaðsstefnu deildarinnar og sinna markaðs- og kynningarmálum fyrir allar þær námsleiðir sem deildin bíður upp á en við deildina stunda um 1300 nemendur nám á 12 sérsviðum, doktorsnámi auk grunnáms.
Viðskiptafræðideild Háskóla Íslands er elsti og stærsti Viðskiptaháskóli á Íslandi. Deildin hefur gegnt forystuhlutverki í menntun stjórnenda og sérfræðinga á sviði viðskiptafræði í liðlega sjö áratugi. Á sama tíma hefur deildin lagt metnað sinn í að auka og miðla framúrskarandi og alþjóðlega viðurkenndri þekkingu á þessu sviði og þjónustu við íslenskt atvinnulíf.
Við bjóðum Gyðu velkomna til starfa hjá deildinni.