Skip to main content
10. febrúar 2025

Guðni tekur við sem stjórnarformaður Alþjóðamálastofnunar

Guðni tekur við sem stjórnarformaður Alþjóðamálastofnunar - á vefsíðu Háskóla Íslands

Ný stjórn Alþjóðamálastofnunar Háskóla Íslands hittist á sínum fyrsta stjórnarfundi þriðjudaginn 4. febrúar síðastliðinn. Nýr stjórnarformaður er Guðni Th. Jóhannesson, prófessor við Deild heimspeki, sagnfræði og fornleifafræði við Háskóla Íslands og forseti Íslands 2016-2024, en auk þess kom Bergdís Ellertsdóttir, sendiherra norðurslóða, inn í stjórn sem nýr fulltrúi frá utanríkisráðuneytinu. 

Mikilvægi þess að sinna öflugu starfi á sviði alþjóðamála hefur sjaldan verið meira og því ánægjulegt að stjórnina skipa einstaklingar með mikla og fjölbreytta þekkingu á sviði alþjóðamála. 

Stjórnina skipa: Ann-Sofie Nielsen Gremaud, dósent í dönsku við Menntavísindasvið Háskóla Íslands og stjórnarformaður Vigdísarstofnunar, Bergdís Ellertsdóttir, sendiherra norðurslóða, Utanríkisráðuneytið, Kári Hólmar Ragnarsson, dósent við Lagadeild Háskóla Íslands, Maximilian Conrad, prófessor við Stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands, Silja Bára Ómarsdóttir, prófessor við Stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands, Þorsteinn Gunnarsson borgarritari og Guðni Th. Jóhannesson, sem jafnframt er stjórnarformaður nýrrar stjórnar.

Þetta var jafnframt síðasti stjórnarfundur Guðmundar Hálfdánarsonar, fráfarandi stjórnarformanns sem sinnt hefur stjórnarformennsku Alþjóðamálastofnunar með mikilli prýði síðastliðin átta ár. 

Starfsemi Alþjóðmálastofnunar HÍ er fjölbreytt en stofnunin sinnir fjölbreyttum rannsóknum og fræðslu auk þess að standa fyrir opnum viðburðum um alþjóðamál  eins og sjá má í samantekt yfir starfsemi stofnunarinnar árið 2024.
 

Ný stjórn Alþjóðamálastofnunar Háskóla Íslands ásamt fráfarandi stjórnarformanni og forstöðumanni stofnunarinnar.  Frá vinstri: Maximilian Conrad, Kári Hólmar Ragnarsson, Guðni Th. Jóhannesson, Guðmundur Hálfdánarson, Ann-Sofie Nielsen Gremaud, Pia Hansson, Silja Bára Ómarsdóttir, Bergdís Ellertsdóttir og Þorsteinn Gunnarsson.