Gefa út handbók um lýðræði fyrir framhaldsskólanema
Tveir nemendur og kennari í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands hafa gefið út handbókina Lýðræðisvitann sem ætluð er ungu fólki á framhaldsskólaaldri og fjallar um grunnþætti lýðræðis. Markmiðið með útgáfunni er m.a. að skapa umræðu meðal ungs fólks um hvað lýðræði er, mikilvægi þess og hvernig ungt fólk getur haft áhrif áhrif í lýðræðissamfélagi.
Kannanir hafa sýnt að ungt fólk virðist síður nýta atkvæðirétt sinn í almennum kosningum til þings og sveitarstjórna og á síðustu árum hefur verið ýtt úr vör ýmsum átaksverkefnum og herferðum til að virkja þennan kjósendahóp. Lýðræðisvitinn er nýjasta framlagið á því sviði en höfundar hans eru þær Sara Þöll Finnbogadóttir og Eva Laufey Eggertsdóttir, nemar í stjórnmálafræði. Verkefnið unnu þær í samstarfi við Evu H. Önnudóttur, prófessor við Stjórnmálafræðideild, og Samband íslenskra framhaldsskólanema (SÍF), Félag félagsfræðikennara í framhaldsskólum (FFF) og Landssamband ungmennafélaga (LUF). Verkefnið hlaut styrk úr sjóði Háskóla Íslands um samfélagslega mikilvæg verkefni.
Handbókinni er skipt í þrjá hluta. Í þeim fyrsta er m.a. fjallað almennt um lýðræði, mun á beinu og óbeinu lýðræði, stjórnkerfið á Íslandi, af hverju þátttaka í lýðræði er mikilvæg og af hverju fólk ætti að láta sig mál samfélagsins varða.
Í öðrum hluta bókarinnar er farið yfir nokkrar aðgerðir sem hægt er að grípa til með það fyrir augum að hafa áhrif, t.d. hvernig er hægt að setja upp umræðufund, skrifa umsagnir um lagafrumvörp, koma efni á framfæri til fjölmiðla eða skrifa í fjölmiðla, að skipuleggja samstarf í gegnum netið og halda kosningar.
Í þriðja og síðasta hluta handbókarinnar eru kynntir til sögunnar leikir sem hægt er að fara í en allir hafa þeir það markmið að skapa umræðu um ólíkar hliðar og ólík hlutverk í lýðræðissamfélagi, svo sem að láta allar raddir hljóma, afla sér fylgis, skapa tengsl og taka þátt.
Um er að ræða tilraunaútgáfu af handbókinni og er hún aðgengileg öllum á netinu.