Skip to main content
9. október 2024

Fyrsta konan sem leiddi friðarsamninga til lykta heimsækir HÍ

Fyrsta konan sem leiddi friðarsamninga til lykta heimsækir HÍ - á vefsíðu Háskóla Íslands

Nemendur við Stjórnmálafræðideild fengu einstakt tækifæri til að ræða heimsmálin þegar samningakonan og sáttamiðlarinn Miriam Coronel Ferrer heimsótti þau í námskeiðinu Friður, öryggi og sáttamiðlun. Ferrer, sem talar á ráðstefnu Höfða – friðarseturs fimmtudaginn 10. október, var fyrsta konan sem leiddi friðarsamninga til lykta, en nú eru tíu ár frá því að Bangsamoro-samkomulagið á Filippseyjum, sem batt enda á átök milli íslamskra uppreisnarhópa  og ríkisstjórnarinnar, var undirritað.

Í kjölfarið hefur Ferrer stundað rannsóknir á samningum og starfað við sáttamiðlun í Afganistan, Georgíu, Írak og Maldíveyjum, svo dæmi séu tekin. Ferrer deildi reynslu sinni af því að koma að friðarsamningum og lagði áherslu á mikilvægi þess að viðurkenna réttmætar umkvartanir samningsaðila til þess að skapa forsendur fyrir réttlátu samkomulagi sem þjónar hagsmunum beggja.
 

Nemendur og kennarar í námskeiðinu Friður, öryggi og sáttamiðlun hlýða á Ferrer. MYND/Kristinn Ingvarsson

Í námskeiðinu, sem Silja Bára Ómarsdóttir, prófessor við Stjórnmálafræðideild heldur utan um og er kennt af Dylan Herrera, doktorsnema í stjórnmálafræði, og Erlingi Erlingssyni hernaðarsagnfræðingi fara nemendur í gegnum uppruna ýmissa átaka og greina uppruna þeirra auk þess að rannsaka hvernig hægt er að hefja friðarumleitanir, miðla málum og leiða til friðar. Námskeiðið var sett á laggirnar til að gera nemendum kleift að greina betur það ófriðarástand sem nú stendur yfir í heiminum og er í boði fyrir þriðja árs nema í stjórnmálafræði og meistaranema í alþjóðasamskiptum.

Sem fyrr segir talar Ferrer á á hinni árlegu friðarráðstefnu Höfða - friðarseturs Háskóla Íslands og Reykjavíkurborgar, The Imagine Forum, en hún fer fram í Iðnó þann 10. október kl. 10-17 verður lögð áhersla á að skoða hvernig við getum stuðlað að opinskáu samtali um friðarferla og friðaruppbyggingu. Hægt er að fylgjast með ráðstefnunni í beinni útsendingu

Miriam Coronel Ferrer