Framkvæmdir hefjast við stækkun Gamla Garðs
Framkvæmdir eru að hefjast vegna stækkunar Gamla Garðs en til stendur að bæta tveim þriggja hæða viðbyggingum við stúdentagarðinn. Gert er ráð fyrir að framkvæmdum ljúki haustið 2021.
Við hönnun hússins var lögð áhersla á að það félli vel að nærliggjandi byggingum Háskóla Íslands, Gamla Garði, Þjóðminjasafni og götumynd við Hringbraut.
Framkvæmdir við stækkun Gamla Garðs munu hafa áhrif á ferðir gangandi og hjólandi vegfarenda nærri framkvæmdasvæðinu og á bílastæðamál. Reynt verður eftir fremsta að megni að haga framkvæmdum þannig að þær valdi sem minnstu ónæði fyrir stúdenta, starfsmenn og gesti á háskólasvæðinu. Reikna má með að jarðvinnu, uppsteypu og lóðavinnu fylgi mest rask en öll vinna mun fara fram virka daga á milli kl. 8-18.
Enn fremur er reiknað með að um 60 bílastæði við norðurenda malarstæðis við Sæmundargötu verði girt af sem athafnasvæði verktaka. Ökumönnum er bent á að finna má annað malarbílasstæði sunnar á háskólasvæðinu, nánar tiltekið á milli byggingar Alvogen og nýs Stúdentagarðs á Sæmundargötu 21. Stefnt er að því að fjölga frekar bílastæðum á núverandi vinnusvæði verktaka þar, þegar framkvæmdum við garðinn lýkur í febrúar.
Nánari upplýsingar um framkvæmdina og framkvæmdasvæðið er að finna á vef Háskóla Íslands.