Fræðimenn HÍ rannsaka áhrif aukinna fæðingarorlofsréttinda
Guðný Björk Eydal, prófessor í félagsráðgjöf, og Ingólfur V. Gíslason, prófessor í félagsfræði, stýra nýrri rannsókn á vegum stjórnvalda á nýtingu fæðingarorlofs og áhrifum þeirra auknu réttinda sem hafa verið innleidd í fæðingarorlofslöggjöfina á síðustu árum.
Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, Stefán Hrafn Jónsson, forseti Félagsvísindasviðs Háskóla Íslands, og Unnur Sverrisdóttir, forstjóri Vinnumálastofnunar, undirrituðu samstarfssamning þessa efnis á rafrænum fundi í vikunni.
Samstarfið tengist rannsókninni „Taka og nýting á fæðingarorlofi meðal foreldra á Íslandi“ sem hefur það að markmiði að meta hvernig íslensk löggjöf um fæðingar- og foreldraorlof nýtist foreldrum. Rýnt er sérstaklega í áhrif þeirra auknu réttinda sem hafa verið innleidd á síðustu þremur árum.
Fram kemur á vef félagsmálaráðuneytisins að rannsókninni verði skipt í þrjá meginrannsóknarþætti: Sögulegri samantekt á nýtingu fæðingarorlofs, könnunum bæði meðal foreldra sem hafa nýtt rétt sinn hjá Fæðingarorlofssjóði og þeirra sem ekki hafa gert það og fræðilegri greiningu á þeirri stefnumótun sem lá til grundvallar löggjöfinni árið 2000.
Bæði Guðný og Ingólfur hafa um árabil sinnt rannsóknum á þessu sviði og birt fjölda vísindagreina ásamt því að leiðbeina doktorsnemum sem hafa rýnt í fæðingarorlofskerfið og áhrif þess.
„Það er gleðiefni að tryggja frekari rannsóknir á fæðingarorlofslöggjöfinni. Við höfum lagt mikla áherslu á að endurreisa fæðingarorlofskerfið með tugmilljarða aðgerðum á þessu kjörtímabili og mikilvægur hluti af því er að halda áfram að greina áhrif þessara aðgerða. Rannsóknin sem nú fer af stað mun veita okkur mikilvæga þekkingu um áhrif þessara aðgerða á næstu árum,“ er haft eftir Ásmundi Einari Daðasyni félags- og barnamálaráðherra.