Skip to main content
7. nóvember 2024

Frábærar viðtökur við starfsþjálfun á vormisseri 2025

Frábærar viðtökur við starfsþjálfun á vormisseri 2025 - á vefsíðu Háskóla Íslands

Hátt í tvö hundruð nemendur hafa lokið starfsþjálfun hjá yfir 60 félagasamtökum, fyrirtækjum, ráðuneytum og stofnunum frá því að Viðskiptafræðideild Háskóla Íslands hóf að bjóða upp á hana fyrir grunn- og meistaranema árið 2020. Mikill áhugi var fyrir þeim starfsþjálfunarstöðum sem bjóðast á vormisseri 2025.

Ásta Dís Óladóttir, prófessor í Viðskiptafræðideild, hefur haldið utan um starfsþjálfunina frá upphafi. „Starfsþjálfun er mikilvæg viðbót við nám á háskólastigi og rannsóknir styðja það. Hún veitir nemendum tækifæri til þess að öðlast færni og hæfni sem erfitt sé að öðlast í gegnum hefðbundið nám í kennslustofu. Við höfum séð það í gegnum árin að nemendur fá í gegnum starfsþjálfunarstöðurnar tækifæri til þess að læra með því að framkvæma undir leiðsögn reyndra aðila í fyrirtækjum og fá einnig markvissa endurgjöf meðan á ferlinu stendur. Þá er einnig ánægjulegt að margir nemendur eru að komast í starfsþjálfun hjá fyrirtækjum og stofnunum sem þau langar að starfa hjá í framtíðinni. Með þessu fá þau innsýn, þjálfun og reynslu auk þess að styrkja tengslanetið sitt og við erum með fjölmörg dæmi um nemendur sem hafa landað draumastarfinu í gegnum starfsþjálfun,“ segir hún.

Í starfsþjálfuninni setja nemendur sér bæði starfs- og námsmarkmið. „Það er mjög gaman að sjá hvað þau eru ólík, það er enginn nemandi með eins markmið, jafnvel þó t.d. tvö séu með sama bakgrunn og fara í starfsþjálfun hjá sama fyrirtæki. Það er það sem gerir þetta allt svo skemmtilegt og sýnir að hvert og eitt þeirra er að gera hlutina á sínum forsendum,“ segir Ásta Dís.

Viðskiptafræðideild auglýsti nýverið eftir umsóknum í starfsþjálfunarstöður fyrir vormisserið 2025 og að sögn Ástu Dísar var mikil eftirspurn eftir þeim. „Okkur bárust 100 umsóknir og það eru 24 stöður í boði sem spanna í raun allar okkar kjarnagreinar í kennslu, bæði í grunn- og meistaranámi. Þetta eru stöður á sviði fjármála, markaðsfræði, nýsköpunar, reikningshalds og stjórnunar,“ segir Ásta Dís.

„Við erum afar þakklát fyrir samstarfsaðila okkar, án þeirra væri þetta ekki hægt. Þau fyrirtæki og stofnanir sem taka á móti nemendum í Starfsþjálfun vorið 2025 eru Birtingahúsið, Bónus, CCEP, Deloitte, Eimskip, Embla Medical, Hoobla, Icelandic Innovation Week, KIWI, Klak Innovit, Kontakt, KPMG, Markaðs- og samskiptasvið Háskóla Íslands, PWC, Seðlabankinn, Teboðið og Vegagerðin,“ segir Ásta Dís að endingu.

Ásta Dís Óladóttir