Fjórða iðnbyltingin hafin í sjávarútvegi
Ómar Enoksson, yfirmaður tækniþróunar hjá Vísi hf. í Grindavík var gestur í Rekstri í sjávarútvegi í vikunni hjá Ástu Dís Óladóttur dósent. Hann fór með nemendur inn í tæknivædda vinnslu Vísis í gegnum Zoom, sem var afar fróðlegt að sjá.
Vísir byggir á gögnum, upplýsingum og þekkingu í starfsemi sinni og hefur á undanförnum árum byggt upp samstarf við Hafsýn, Wise og Marel til að nýta stafrænar lausnir og hámarka virði. Vísir heldur rafræna afladagbók þar sem magn, tegundir, staðsetning veiða og aðrar upplýsingar eru skráðar. Stærð afurða er mæld í landi og afladagbók uppfærð. Þannig vinna kerfin saman hjá fyrirtækinu.
Vísir varð fyrst sjávarútvegsfyrirtækja til að hljóta þekkingarverðlaun FVH, árið 2018. Þá sagði að ,,Vísir hafi náð eftirtektarverðum árangri í rekstri sínum, aukið framleiðni og skilvirkni með innleiðingu og þróun stafrænna lausna. Þá hafi þeir með innleiðingu stafrænna lausna náð hagræðingu í rekstri með virkri stýringu flotans, nýtingarauka og hærra hlutfalli í betur borgandi afurðir. Þannig opnar tæknin þann möguleika að Vísir klári framleiðsluferlið beint í neytendapakkningar sem sparar milliflutninga og milliumbúðir, stórt skref í að minnka enn frekar kolefnisspor sjávarútvegsins.“
Vísir hefur innleitt róbóta eða þjarka í vinnsluna hjá sér, sem raðar fiskbitum í kassa af mikilli nákvæmni, eftir meðalþyngd og umbeðnum stykkjafjölda. Róbótinn er eðlilegt framhald af þeirri þróun sem verið hefur með skurðarvélarnar og því spennandi tímar framundan í greininni og ljóst að fjórða iðnbyltingin er hafin í sjávarútvegi.
Hér neðar má sjá brot úr erindi Ómars.