Skip to main content
20. nóvember 2019

Fjögur fá verðlaun fyrir lofsverðan árangur í starfi

Fjórir starfsmenn Háskóla Íslands fengu viðurkenningu fyrir lofsvert framlag til Háskólans á sviði rannsókna, kennslu, jafnréttismála og annarra starfa í þágu skólans á opnum fundi rektors með starfsfólki í Hátíðasal í dag. Viðurkenningarhafarnir eru þau Silja Bára Ómarsdóttir, dósent við Stjórnmálafræðideild, Thor Aspelund, prófessor við Læknadeild, Hjalti Már Stefánsson, garðyrkjustjóri Háskóla Íslands, og Rannveig Traustadóttir, prófessor við Félagsfræði-, mannfræði- og þjóðfræðideild.

Silja Bára Ómarsdóttir hlýtur viðurkenninguna fyrir lofsvert framlag til kennslu. Hún lauk BA-prófi í alþjóðasamskiptum frá Lewis & Clark College í Portland í Bandaríkjunum árið 1995, MA-prófi í sömu grein við University of Southern California í Bandaríkjunum 1998, viðbótardiplóma í aðferðafræði félagsvísinda við Háskóla Íslands 2011, viðbótardiplóma í kennslufræði háskóla frá Háskóla Íslands 2012 og doktorsprófi í stjórnmálafræði við University College Cork á Írlandi 2018. Hlaut hún Basil Chubb verðlaunin fyrir bestu doktorsritgerð á því sviði á Írlandi 2018. Silja Bára starfaði sem verkefnisstjóri og sviðsstjóri á Jafnréttisstofu, sem forstöðumaður Alþjóðamálastofnunar Háskóla Íslands og Rannsóknaseturs um smáríki og er nú dósent í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands. 

Í umsögn valnefndar segir: „Silja Bára hefur alla tíð haft brennandi áhuga á kennslu og kennsluþróun á háskólastigi. Hún hefur sérlega skapandi nálgun á kennslumál og hefur verið óhrædd við að fara nýjar leiðir til þess að virkja nemendur í kennslustofunni. Hún leggur mikið upp úr því að vekja áhuga nemenda á viðfangsefninu og tengja það við daglegt líf þeirra. Í því skyni notar hún m.a. samfélagsmiðla til að benda á efni sem tengist viðfangsefninu hverju sinni auk þess sem hún nýtir vendikennslu með árangursríkum hætti. 

Silja Bára hefur verið mjög farsæll kennari bæði í kennslustofunni og sem leiðbeinandi í lokaverkefnum, en nemendur hennar hafa hvað eftir annað unnið til verðlauna fyrir ritgerðir sínar. 

Hún hefur jafnframt sinnt kennsluþróun á Félagsvísindasviði af mikilli alúð og áhuga og var formaður kennslunefndar sviðsins frá 2015 til 2017. Jafnframt hefur Silja Bára tekið þátt í fjölda verkefna sem styrkt hafa verið af kennsluþróunarsjóði, nú síðast verkfærakistu leiðbeinandans þar sem hún og samstarfskona hennar tókust á við þær áskoranir sem leiðbeinendur lokaverkefna standa frammi fyrir. Silja Bára var upphafsmaður að svokölluðu „kennsluborði“ Stjórnmálafræðideildar þar sem kennarar deildarinnar ræða kennslu og fá til sín sérfræðinga til skrafs og ráðagerða.“

Thor Aspelund hlýtur viðurkenning fyrir lofsvert framlag til rannsókna. Hann lauk BS-prófi í stærðfræði frá raunvísindadeild Háskóla Íslands 1994, MS-prófi í tölfræði frá University of Iowa í Bandaríkjunum 1998 og doktorsprófi í sömu grein frá sama háskóla 2002. Að námi loknu hóf hann störf sem tölfræðingur hjá Hjartavernd. Hann var ráðinn dósent við Háskóla Íslands 2007, fyrst við stærðfræðiskor Raunvísindadeildar og síðar við Læknadeild og Miðstöð í lýðheilsuvísindum. Thor varð prófessor 2015. 

„Thor Aspelund á að baki glæsilegan vísindaferil með vísindamönnum Hjartaverndar og Háskóla Íslands og hefur hann m.a. birt hátt á þriðja hundrað vísindagreina. Samkvæmt gagnagrunninum Web of Science, sem geymir m.a. upplýsingar um fjölda birtra vísindagreina einstakra vísindamanna við Háskóla Íslands frá upphafi, er Thor í 5. sæti yfir þá sem flestar greinar hafa birt. Árið 2018 var hann í hópi efsta 1% vísindamanna í heiminum sem teljast til svokallaðra „highly cited researchers“ í „cross-field“. 

Í rannsóknum sínum hefur Thor komið að gerð spálíkana fyrir sjúkdóma sem m.a. nýtast við forvarnir. Á því sviði tók hann þátt í hönnun áhættureiknis Hjartaverndar fyrir hjartasjúkdóma sem er aðgengilegur á vefnum hjarta.is og er mikið notaður. Einnig tók hann þátt í að hanna áhættureikni fyrir skimanir í sykursýki og stofnaði ásamt fleirum sprotafyrirtæki um það verkefni. Áhættureiknirinn er nú aðgengilegur almenningi bæði á vef og í snjalltækjum og hefur verið sannreyndur í Danmörku, Spáni og Englandi. Loks hefur Thor tekið þátt í leiðbeiningu fjölda doktorsnema,“ segir m.a. í umsögn valnefndar. 

Hjalti Már Stefánsson hlýtur viðurkenningu fyrir lofsvert framlag til stjórnsýslu og stoðþjónustu í Háskóla Íslands. Hann útskrifaðist með sveinspróf í skrúðgarðyrkju af skrúðgarðyrkjubraut Garðyrkjuskóla ríkisins árið 1998 og árið 2014 öðlaðist hann iðnmeistararéttindi eftir nám í Meistaraskóla Tækniskólans. Hjalti stofnaði fyrirtækið Lystigarðar ehf. árið 2000 og starfrækti það til 2016 er hann hóf störf hjá Háskóla Íslands. 

Valnefnd segir í umsögn sinni: „Þegar gengið er um háskólalóðina að sumri, hausti, vetri eða vori er áberandi hversu snyrtileg og falleg lóðin er ásýndum. Sá sem á heiðurinn af því er Hjalti Már Stefánsson, garðyrkjustjóri Háskóla Íslands, ásamt öðru starfsfólki garðyrkjudeildar Háskólans. Starfssvið Hjalta er umfangsmikið og fjölbreytt og spannar alla umhirðu gróðurs og lóða Háskólans, hvort sem um er að ræða viðhald eða nýframkvæmdir. Hann hefur umsjón með því að tré og plöntur séu vel hirtar, útivistarsvæði aðlaðandi, bílastæði aðgengileg og að gangandi og akandi vegfarendur eigi greiða leið að lóðum og byggingum Háskólans jafnt að sumri sem vetri. 

Það sem einkennir Hjalta í starfi er fagmennska og vandvirkni. Hann er afar greiðvikinn og góður í samstarfi og á einkar auðvelt með að virkja samstarfsfólk sitt. Á yfirvegaðan hátt leysir Hjalti verkefnin hratt og vel, af natni og virðingu. Á snjóþungum vetrardögum er hann kominn til starfa á meðan flestir eru enn í fastasvefni til að tryggja að nemendur og starfsfólk komist greiðlega að byggingum Háskólans til að sinna námi og störfum. Hjalti er ævinlega reiðubúinn að hlusta á hugmyndir og sjónarmið annarra og er fljótur að bregðast við þeim. 

Óhætt er að fullyrða að lóðir Háskóla Íslands séu skólanum til sóma. Auk fegurðargildisins stuðla þær að vellíðan háskólafólks og jákvæðri ímynd skólans. Þá felur góð umhirða háskólasvæðisins ekki síður í sér mikilsvert framlag til öryggis starfsmanna, nemenda og gesta. Hjalti hefur sinnt öllum þessum verkefnum af slíkri samviskusemi, smekkvísi og alúð að eftir er tekið.“ 

Rannveig Traustadóttir hlýtur viðurkenningu lofsvert framlag til jafnréttismála innan Háskóla Íslands en slík viðurkenning er nú veitt í fyrsta sinn. Rannveig lauk BA-prófi í félagsfræði og heimspeki frá Háskóla Íslands 1985, doktorsprófi í fötlunarfræðum frá Syracuse-háskólanum í New York í Bandaríkjunum 1992 og diploma í kynjafræði frá sama skóla. Hún var ráðin lektor við Félagsvísindadeild Háskóla Íslands 1995, varð dósent 1997 og prófessor við Félagsfræði-, mannfræði- og þjóðfræðideild 2003. 

„Rannveig er brautryðjandi á sviði jafnréttismála við Háskóla Íslands og hefur nálgast málaflokkinn á breiðum grundvelli margbreytileika. Hún var meðal fyrstu kennara skólans til að kenna um mannréttindi, margbreytileika og minnihlutahópa snemma á tíunda áratug síðustu aldar. 

Rannveig tók virkan þátt í að byggja upp nám í kvenna- og kynjafræði, var fyrsti umsjónarkennari þess og vann að ráðningu fyrsta lektorsins í kvennafræðum. Auk þess sat hún um tíma í stjórn og veitti formennsku Rannsóknastofu í kvennafræðum og ritstýrði ásamt Helgu Kress bókinni Íslenskar kvennarannsóknir sem kom út árið 1997,“ segir m.a. í umsögn valnefndar. 

Þá er bent á að Rannveig hafi beitt sér fyrir því að stofnað var starf jafnréttisfulltrúa Háskóla Íslands, hún hafi setið í jafnréttisnefnd og ráði um málefni fatlaðs fólks um árabil og tekið virkan þátt í að vinna fyrstu jafnréttisáætlun Háskóla Íslands og síðar stefnu skólans gegn mismunun. 

„Á síðustu árum hefur Rannveig helgað fötlunarfræðinni krafta sína. Hún byggði upp námsbraut í fötlunarfræðum og var fyrsti prófessorinn við námsbrautina. Hún hefur veitt Rannsóknasetri í fötlunarfræðum forstöðu frá upphafi. Þá var hún ritstjóri fyrsta íslenska ritsins sem kom út á sviði fötlunarfræða árið 2003. Í gegnum árin hefur hún unnið ötullega með samtökum fatlaðs fólks og beitt sér fyrir því að koma málefnum þess og réttindum á framfæri. Hafa rannsóknir hennar ekki síst beinst að innleiðingu Samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, en hann er einn helsti mannréttindasáttmáli okkar tíma,“ segir einnig í umsögn valnefndar. 

Um viðurkenningarnar

Viðurkenningar fyrir lofsverðan árangur í starfi hafa verið veittar í Háskóla Íslands í tvo áratugi. Staðið er þannig viðurkenningunum að öllu starfsfólki og nemendum gefst kostur á að senda inn tilnefningar í gegnum rafræna gátt auk þess sem þrjár af starfsnefndum háskólaráðs, kennslumálanefnd, vísindanefnd og jafnréttisnefnd, senda inn a.m.k. þrjár tilnefningar hver. 

Þriggja manna valnefnd fer síðan yfir tilnefningarnar og velur einn úr hverjum hópi. Í ár tók við ný valnefnd og er hún skipuð þeim Ingibjörgu Gunnarsdóttur, prófessor og varaforseta háskólaráðs, sem er formaður, Eiríki Rögnvaldssyni, prófessor emerítus og fyrrverandi varaforseta háskólaráðs, sem er fulltrúi fyrrverandi starfsmanna í nefndinni, og Ásthildi Margréti Otharsdóttur, ráðgjafa og formanni stjórnar Marel hf., fulltrúa í háskólaráði, en Ásthildur er jafnframt fulltrúi fyrrverandi nemenda í valnefndinni.

Alls hafa 57 starfsmenn Háskóla Íslands verið heiðraðir með þessum hætti.

Háskóli Íslands óskar fjórmenningunum innilega til hamingju með viðurkenninguna og þakkar þeim framúrskarandi störf í þágu skólans.

Jón Atli Benediktsson, Rannveig Traustadóttir, Hjalti Már Stefánsson, Silja Bára Ómarsdóttir og Thor Aspelund.