Fjársjóður framtíðar hlýtur vísindamiðlunarverðlaun Rannís
Sjónvarpsþáttaröð háskóla Íslands, Fjársjóður framtíðar, vann Vísindamiðlunarverðlaun Rannís á Vísindavöku í Laugardalshöll í gærkvöldi en röðin var frumsýnd á RÚV í vor. Í þáttaröðinni var fjallað um fjölbreyttar rannsóknir vísindamanna af öllum fræðasviðum Háskóla Íslands og var sjónum m.a. beint að loftslagsbreytingum og áhrifum þeirra á lífríki og samfélög, náttúruvá og eldgosum, fuglum, fjarkönnun, norðurljósum, hvölum og grunnrannsóknum á krabbameini. Þáttaröðin hefur verið fastur liður í dagskrá RÚV frá árinu 2011 og hefur verið sýnd á Norðurlöndunum auk þess að keppa um gullverðlaun á AFO, einni elstu og virtustu vísindakvikmyndahátíð í Evrópu.
Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, afhenti verðlaunin við hátíðlega athöfn á mjög fjölsóttri Vísindavöku í gær. Í máli hennar kom fram að vísindaröðin um Fjársjóð framtíðar væri eitt viðamesta verkefni sem Háskóli Íslands hefði tekist á hendur til að miðla vísindum til almennings. Í ávarpi mennta- og menningarmálaráðherra kom einnig fram að markmiðið með þáttaröðinni væri að auka áhuga og þekkingu almennings á öllum aldri á vísindum og nýsköpun og að þjóðin skynjaði og skildi mikilvægi þessara þátta fyrir velferð samfélagsins.
Handrit nýju raðarinnar, sem sýnd var á RÚV í vor, var unnið af þeim Jóni Erni Guðbjartssyni, sviðsstjóra markaðs- og samskiptasviðs Háskóla Íslands, Birni Gíslasyni, kynningarstjóra Háskólans, og Konráð Gylfasyni kvikmyndagerðarmanni en þeir þrír sáu einnig um dagskrárgerð. Konráð var kvikmyndatökumaður í nýju röðinni og sá um samsetningu og klippingu en einnig fengu áhorfendur að njóta einstakra neðansjávarmynda sem Erlendur Bogason tók af vísindamönnum Háskóla Íslands við rannsóknir, m.a. í Ísafjarðardjúpi. Stefán Drengsson kvikmyndagerðarmaður tók einnig fjölmörg myndskeið í þáttaröðinni.
Þá voru magnaðar skeiðmyndir (time laps) í nýju röðinni sem teknar voru af Þorvarði Árnasyni sem kemur reyndar sjálfur við sögu í Fjársjóði framtíðar sem vísindamaður en hann er forstöðumaður rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Hornafirði. Einstök flugskot og drónaskot í röðinni voru tekin af Óla Hauki Mýrdal.
Í umsögn Rannís um verðlaunin kom fram að í takt við áherslu Vísindavöku Rannís, þá væri vísindafólkið sjálft í forgrunni í þáttaröðinni Fjársjóði framtíðar, þar sem það miðlaði rannsóknum sínum til almennings.
„Óhætt er að segja að þættirnir hafi frá upphafi vakið gríðarlega athygli og að sú athygli hafi náð langt út fyrir landsteina. Þættirnir hafa verið kynntir sem einstakt verkefni í vísindamiðlun á Evrópuráðstefnu bandalags háskóla og æðri menntastofnanna, á árvissri ráðstefnu EUPRIO, sem er félag samskiptafólks í evrópskum háskólum, á ráðstefnu UNICA, sem er samstarfsnet háskóla í evrópskum höfuðborgum, svo fátt eitt sé talið.
Það er álit dómnefndar Rannís að sjónvarpsþáttaröðin Fjársjóður framtíðar sé einstaklega vel að viðurkenningu fyrir vísindamiðlun komið,“ segir í umsögn Rannís.
Þulur í öllum þáttum í röðunum þremur var Jón Örn Guðbjartsson en Birgir Tryggvason sá um hljóðsetningu.
Nýja þáttaröðin var öll tekin upp í ofurskerpu (4K) en þær tvær fyrri í háskerpu (HD), og var fyrsta röðin, sem sýnd var á aldarafmæli Háskóla Íslands árið 2011, með allra fyrstu íslensku sjónvarpsþáttunum sem sýndir voru í háskerpu.
Nýjasta röðin um Fjársjóð framtíðar er framleidd af Háskóla Íslands og KAM-film fyrir RÚV.