Fimmtán fyrirtæki verðlaunuð fyrir góða stjórnarhætti
Fimmtán fyrirtæki fengu viðurkenningu sem fyrirmyndarfyrirtæki í góðum stjórnarháttum á ráðstefnu Rannsóknarmiðstöðvar um stjórnarhætti við Háskóla Íslands þann 10. apríl sl. Eftirfarandi fyrirtæki fengu viðurkenningu: Advania Norden hf., Arion banki hf., EIK fasteignafélag hf., Isavia ohf., Íslandsbanki hf., Íslandssjóðir hf., Landsbankinn hf., Mannvit hf., Marel hf., Reiknistofa bankanna hf., Reitir fasteignafélag hf., Stefnir hf., Tryggingamiðstöðin hf., Vátryggingafélag Íslands hf. og Ölgerðin Egill Skallagrímsson ehf.
Viðurkenningunni er ætlað að stuðla að umræðum og aðgerðum sem efla góða stjórnarhætti. Hún byggist á úttekt á góðum stjórnarháttum sem tekur mið af leiðbeiningum sem Viðskiptaráð Íslands, Samtök atvinnulífsins og Nasdaq Iceland gefa út. Á annan tug viðurkenndra aðila vinnur úttekt á fyrirtækjum en umsjón með viðurkenningarferlinu hefur Rannsóknarmiðstöð um stjórnarhætti við Háskóla Íslands.
Í erindum og í pallborðsumræðum á ráðstefnunni í Hátíðasal Háskóla Íslands var bent á að það væri lykilatriði að íslensk fyrirtæki héldu áfram að byggja upp traust á íslensku atvinnulífi. Það væri ekki hægt nema fyrirtæki væru rekin í sátt og samlyndi við samfélagið. Næsta skref í góðum stjórnarháttum væri að skoða hvernig ætta að velja stjórnarmenn og gætu tilnefningarnefndir leikið stórt hlutverk í því ferli en markmiðið væri að auka viðeigandi hæfni stjórnarmanna og hæfni til að takast á við áskoranir framtíðarinnar.
Eyjólfur Árni Rafnsson, stjórnarformaður Eikar og SA, og Helga Björk Eiríksdóttir, formaður bankaráðs Landsbankans, héldu erindi um mikilvægi þess að fara í gegnum endurmatsferli á stjórnarháttum með það að leiðaljósi að betrumbæta stjórnarhætti og hjálpa stjórninni að læra af reynslunni.
Guðrún Hafsteinsdóttir , stjórnarformaður Lífeyrissjóðs verzlunarmanna og SI, Þórður Magnússon, stjórnarformaður Eyrir Invest, Þórey S. Þórðardóttir , framkvæmdastjóri Landssamtaka lífeyrissjóða, og Flóki Halldórsson, framkvæmdastjóri Stefnis, tóku þátt í pallborðsumræðum þar sem jafnframt var lögð var áhersla á að velja fólk sem hefði skilning á tækni og stefnumiðaðri stjórnun í stjórnir fyrirtækja.
Aðalfyrirlesari ráðstefnunnar, Bob Garratt, prófessor við Cass Business School í London, sagði að stjórnir yrðu í auknum mæli að sinna lærdómsferlinu til þess að geta byggt upp sameiginlega hæfni stjórnarteymisins. Eyþór Ívar Jónsson, forstöðumaður Rannsóknarmiðstöðvar um stjórnarhætti, tók undir þetta viðhorf og sagði að næsta skref fyrir fyrirmyndarfyrirtæki í góðum stjórnarháttum væri að leggja áherslu á lærdómsferlið enda hefði það verið upphaflegur tilgangur verkefnisins að stjórnir myndu nýta endurmat til þess að betrumbæta stjórnarhætti. Jafnframt ætti verkefni að vekja athygli á því sem vel væri gert og gæti verið stjórnum annarra fyrirtækja til fyrirmyndar.
Ráðstefnuritið Góðir stjórnarhættir var gefið út í tengslum við ráðstefnuna.
Upplýsingar um verkefnið Fyrirmyndarfyrirtæki um góða stjórnarhætti má finna á heimasíðu Rannsóknarmiðstöðvar um stjórnarhætti.