Skip to main content
16. desember 2020

Fá veglega styrki úr Markáætlun vegna samfélagslegra áskorana    

Fá veglega styrki úr Markáætlun vegna samfélagslegra áskorana     - á vefsíðu Háskóla Íslands

Vísindamenn við Háskóla Íslands koma að fjórum af sjö verkefnum sem boðið hefur verið til samninga um veglega styrki úr Markáætlun vegna samfélagslegra áskorana. Verkefnin sem þeir vinna að snerta allt frá vistfræði og næringarfræði til nýrra úrræða tengdum geðheilsu og heilbilunarsjúkdómum. 

Markáætlun vegna samfélagslegra áskorana er nýr samkeppnissjóður á vegum stjórnvalda sem settur var á laggirnar fyrr á þessu ári. Háskólar, fyrirtæki og rannsóknarstofnanir, sem vinna saman á ákveðnu fræðasviði eða þverfaglegum fræðasviðum á grundvelli vandaðra rannsóknaráætlana, geta sótt um styrki í hann.

Vísinda- og tækniráð ákvarðar áherslur áætlunarinnar en þeim er skipt í þrjá flokka: umhverfismál og sjálfbærni, heilsu og vegferð og líf og störf í heimi breytinga. Markmiðið með styrkveitingum úr sjóðnum er að hraða framförum í þessum þremur flokkum og sérstaklega er hvatt til þverfaglegs samstarfs sem stuðlar að rannsóknum og nýsköpun. Alls leggja stjórnvöld einn milljarð króna í áætlunina á árunum 2020-2023.

Auglýst var eftir umsóknum um styrki úr sjóðnum fyrr í haust og reyndust þær alls 68. Stjórn Markáætlunarinnar valdi í framhaldinu sjö verkefni og verður verkefnastjórum þeirra boðið að ganga til samninga um styrki sem nema allt að 360 milljónum króna samanlagt.

Sem fyrr segir koma vísindamenn Háskóla Íslands að fjórum verkefnanna og má áætla að þeim standi til boða samtals á þriðja hundrað milljónir króna í styrki úr áætluninni. Vísindamennirnir sem um ræðir eru:  

  • Þóra Ellen Þórhallsdóttir, prófessor við Líf- og umhverfisvísindadeild, sem vinnur að verkefninu „Endurheimt birkivistkerfa á 21. öld – áskoranir, leiðir og ávinningur“ ásamt þeim Ásu Lovísu Aradóttur frá Landbúnaðarháskóla Íslands og Kristínu Svavarsdóttur frá Landgræðslunni. Verkefni þeirra er í flokknum Umhverfi og sjálfbærni.
  • Þórhallur Ingi Halldórsson, prófessor við Matvæla- og næringarfræðideild, sem stýrir verkefninu „Sjálfbært heilsusamlegt mataræði: Vísindi sem vegvísir í átt að sjálfbærri framtíð“. Það er einnig í flokknum Umhverfi og sjálfbærni.
  • Andri Steinþór Björnsson, prófessor við Sálfræðideild, og Arna Hauksdóttir, prófessor við Læknadeild, sem vinna að verkefninu „Lóan: Dregið úr áleitnum endurminningum eftir áföll með hugrænu inngripi“ ásamt Emily A. Holmes, vísindamanni við Uppsalaháskóla. Verkefnið er í flokknum Heilsa og velferð.
  • Lotta María Erlingsen, dósent við Rafmagns- og tölvuverkfræðideild, sem stýrir verkefninu „Leit að lífmerkjum í heilamyndum fyrir snemmbúna greiningu á Parkinson plús sjúkdómum“ sem tilheyrir flokknum Heilsa og velferð. Þess má geta að verkefnið hlaut fyrr á árinu Vísinda- og nýsköpunarverðlaun Háskóla Íslands

Nánari upplýsingar um markáætlunina og aðra styrkþega má finna á vef Rannís.

Háskóli Íslands óskar vísindamönnum skólans og samstarfsfólki innilega til hamingju með styrkina.
 

Þau Þóra Ellen Þórhallsdóttir, Þórhallur Ingi Halldórsson, Arna Hauksdóttir, Andri Steinþór Björnsson og Lotta María Ellingsen hljóta öll styrk úr nýrri Markáætlun vegna samfélagslegra áskorana.