Skip to main content
10. febrúar 2017

Evrópskur bankaréttur eftir Arnald Hjartarson

""

Út er komin bókin Evrópskur bankaréttur og áhrif hans á íslenskan rétt eftir Arnald Hjartarson, aðjúnkt við Lagadeild Háskóla Íslands.

Fyrir tilstilli EES-samningsins hefur íslensk löggjöf um starfsemi lánastofnana á borð við banka og sparisjóði verið samofin Evrópurétti í tæpan aldarfjórðung. Á þessu tímabili hefur evrópskur bankaréttur tekið miklum breytingum, en þetta á ekki síst við í kjölfar hinnar alþjóðlegu fjármálakreppu sem gerði fyrst vart við sig árið 2007 og komst í hámæli haustið 2008.

Í ritinu eru reglur Evrópusambandsins á þessu sviði kortlagðar, söguleg þróun réttarsviðsins rakin og áhrif þeirra á íslenskan rétt á grundvelli EES-samningsins jafnframt skýrð. Áhersla er lögð á að útskýra samspil evrópsks bankaréttar og almennra reglna Evrópuréttarins, einkum um fjórfrelsið. Þá er gerð grein fyrir bankastarfsemi í sögulegu og hagfræðilegu samhengi. Loks er fjallað um megindrætti fjármálaeftirlits og framkvæmd þess á Íslandi.

Arnaldur Hjartarson er aðjúnkt við Lagadeild Háskóla Íslands og aðstoðarmaður dómara við EFTA-dómstólinn. Hann er með LL.M. gráðu frá Yale-háskóla en þaðan útskrifaðist hann með hæstu mögulegu einkunn. Áður lauk hann laganámi við Háskóla Íslands. Hann hefur meðal annars starfað sem sérfræðingur við Lagastofnun Háskóla Íslands, aðstoðarmaður dómara við Hæstarétt Íslands og verið settur dómari við Héraðsdóm Reykjavíkur.

Kennslugreinar hans hafa einkum verið Evrópuréttur, evrópskur bankaréttur, félagaréttur, fjármálamarkaðir, alþjóðlegur einkamálaréttur, kröfuréttur og réttarhagfræði.

""
Arnaldur Hjartarson
Bókin Evrópskur bankaréttur og áhrif hans á íslenskan rétt.
Arnaldur Hjartarson, aðjúnkt við Lagadeild