Evrópa, hreyfanleiki og fordómar á nýrri vefsíðu
Rannsóknarverkefnið Evrópa, hreyfanleiki og fordómar (Creating Europe through Racialized Mobilities) hefur opnað nýja vefsíðu. Kristín Loftsdóttir, prófessor í mannfræði við Háskóla Íslands, stýrir verkefninu, sem styrkt er af Rannsóknasjóði, en að því koma bæði íslenskir og erlendir fræðimenn.
Í verkefninu er rýnt í hreyfanleika í Evrópu og tengsl hans við sjálfsmyndir og margs konar misskiptingu. Byggt er á gagnrýnu sjónarhorni mannfræði og svokallaðra eftirlendufræða þar sem lögð hefur verið áhersla á að hreyfanleiki einstaklinga mótist meðal annars af kyni, stétt og flokkun í kynþætti.
„Hugmyndin um Evrópu hefur verið mótuð út frá afmörkun frá öðrum þar sem kynþáttafordómar hafa lengi spilað stórt hlutverk en þar má einnig finna margs konar innri skiptingu og stigveldi. Sumir einstaklingar og landfræðilegir hlutar Evrópu eru taldir standa fyrir hina sönnu Evrópubúa á meðan iðulega er vísað til annarra sem „vanþróaðra“ eða á einhvern hátt „misheppnaðra“,“ segir Kristín.
Í rannsóknarverkefninu er spurt hvað ólíkar tegundir hreyfanleika segja um tilurð Evrópubúa sem markaða af kynþáttahugmyndum og hvernig nota má hreyfanleika á jaðri Evrópu til að skilja betur hugmyndina um Evrópu sjálfa. Kjarna rannsóknarinnar má einfalda í tvö samofin markmið:
- Hreyfanleiki og Evrópa frá jaðrinum: Hvernig verður hreyfanleiki á jaðri Evrópu hluti af af sköpun og endursköpun hugmyndarinnar um „Evrópu“?
- Kynþáttun (e. racialization) hreyfanleika innan og til/frá Evrópu: Hvernig er hreyfanleiki innan Evrópu og til og frá Evrópu mótaður af kynþáttahyggju og hvernig skarast hann á við aðrar afmarkanir eins og kyn og stétt?
Í verkefninu er áhersla lögð á mikilvægi þess að skoða hreyfanleika með gagnrýnum hætti í ljósi þeirrar hnattrænu þróunar og breytinga sem hafa átt sér stað undanfarið.
Nánari upplýsingar um rannsóknaverkefnið má finna á cerm.hi.is