Eldgos, pólitík og Tyrkjarán í mest lesnu svörum Vísindavefsins 2024
Svör um fjölda og stærð eldgosa á Reykjanesskaga, starfsstjórn, uppgreiðslu lána, og um það hvort svonefndir Tyrkjaránsmenn hafi eignast börn með íslenskum konum, voru mest lesnu nýju svör ársins 2024 á Vísindavefnum.
Fimm mest lesnu nýju svör ársins 2024
- Hvað hefur gosið oft á Reykjanesskaga síðan 2021 og hversu stór hafa gosin verið? eftir Magnús Tuma Guðmundsson og Jón Gunnar Þorsteinsson
- Hvað er starfsstjórn og hvaða reglur gilda um hana? eftir Hafstein Þór Hauksson
- Hvers vegna var talið óhætt að flytja til Eyja skömmu eftir gos, meðan Grindavík er nú varanlega ótraust? eftir Pál Einarsson
- Hvor verður fyrri til að greiða upp jafnhá lán á sömu vöxtum, sá sem tekur verðtryggt lán eða sá sem tekur óverðtryggt? eftir Gylfa Magnússon
- Er vitað til þess að Tyrkjaránsmenn hafi eignast börn með íslenskum konum? eftir Má Jónsson
Eins og gefur að skilja eru umbrotin á Reykjanesskaga enn ofarlega í huga lesenda Vísindavefsins en árið 2023 voru þó enn fleiri svör af þeim toga á listanum, alls þrjú af þeim fimm vinsælustu. Einnig vekur athygli að svar um sögu 17. aldar er eitt af mest lesnu svörunum árið 2024 og virðist sem nú sé áhugi á sögu 16. og 17. aldar orðinn heldur meiri á Vísindavefnum en landnámsöld og víkingatímanum. Eldri svör um sögu 16. og 17. aldar sem fjölmargir lásu á árinu fjalla meðal annars um Stóradóm, Drekkingarhyl, galdrafárið og helstu atburði Tyrkjaránsins.
Hins vegar er ljóst að stjórnmálafræðin er senuþjófur ársins og svör um kosningar og stjórnmál hafa sjaldan eða aldrei verið meira lesin á Vísindavefnum. Ástæðan er væntanlega flestum ljós, enda var bæði kosið um nýjan forseta og nýja ríkisstjórn á árinu, auk forsetakosninga í Bandaríkjunum sem margir fylgdust með hér á landi. Fjögur mest lesnu svörin af þessum toga fjalla öll um yfirgripsmikil hugtök og fast á hæla þeirra fylgja svör um valdsvið forseta (reyndar svar um launakjör forseta skörinni hærra) og einnig ýtarlegt svar um kosningakerfið á Íslandi.
Mest lesnu svörin um stjórnmál og kosningar árið 2024
- Hvað er lýðræði? eftir Ólaf Pál Jónsson
- Hvað er fasismi? eftir Hrafnkel Tjörva Stefánsson
- Hvað merkja hugtökin hægri og vinstri í stjórnmálum? eftir Huldu Þórisdóttur
- Hvað er popúlismi? eftir Stefaníu Óskarsdóttur
- Hver eru árslaun forseta Íslands og hvaða fríðindi fylgja starfinu? eftir Björn Reyni Halldórsson
- Hvað gerir forseti Íslands og hvaða völd hefur hann? eftir Guðna Th. Jóhannesson
- Hvernig virkar kosningakerfið á Íslandi? eftir Þorkel Helgason
Umferð um Vísindavefinn var með sama móti og undanfarin tvö ár. Árlegar heimsóknir á árinu 2024 voru um tvær og hálf milljón og flettingar rúmar þrjár milljónir. Að meðaltali heimsækja um sjö þúsund manns Vísindavefinn daglega og fletta þar tæplega níu þúsund síðum. Gera má ráð fyrir að þrettán prósent þjóðarinnar heimsæki vefinn í hverri viku. Breiddin í lestri er veruleg og þannig getur fjöldi þeirra svara sem lesin eru á einum degi hæglega nálgast sex þúsund.
Í lokin er rétt að taka fram að þessi samantekt er aðallega til gamans gerð og þó svo að hægt sé að greina ákveðna efnisþætti í svörum sem lesendur hafa greinilega töluverðan áhuga á, munar oft litlu á lestri annarra svara sem fylgja þar skammt á eftir. Það ánægjulega er vitanlega hversu margir sýna vísindum og fræðum mikinn áhuga, bæði með því að senda inn spurningar um hvaðeina sem tengist vísindum og með lestri svaranna.