Einn og hálfan milljarð króna vantar í rekstur HÍ 2017

Háskólaráð samþykkti neðangreinda ályktun einróma á fundi sínum 10. nóvember 2016:
Háskólaráð Háskóla Íslands skorar á Alþingi að bregðast við þeim bráða fjárhagsvanda sem steðjar að starfi skólans.
Fyrir liggur að Háskóli Íslands hefur búið við skertar fjárveitingar árum saman um leið og nemendum hefur fjölgað mikið og kröfur til skólans aukist. Háskólinn hefur gætt ítrasta aðhalds í öllum rekstri, en lengra verður ekki gengið. Fyrir liggur að skólinn verður að óbreyttu rekinn með a.m.k. 300 m.kr. halla á þessu ári og er algjör óvissa um framhaldið.
Gæðum náms og kennslu við Háskóla Íslands er því stefnt í voða og stöðu og orðspori hans á alþjóðavettvangi ógnað.
Nauðsynlegt er að háskólar á Íslandi séu fjármagnaðir á sambærilegan hátt og háskólar í nágrannalöndunum, en langur vegur er frá því að svo sé skv. skýrslum OECD. Mikilvægt er að stíga strax ákveðin skref í þá átt að bæta fjármögnun háskólanna með auknum fjárveitingum. Til að gera allra brýnustu leiðréttingar á reikniflokkum ólíkra námsgreina þarf Háskóli Íslands um 1,5 milljarð króna árið 2017. Núverandi reikniflokkaverð Mennta- og menningarmálaráðuneytisins hamlar eðlilegum og nauðsynlegum kennsluháttum við skólann. Dregið hefur verið úr þjónustu við nemendur, álag á starfsfólk aukist til muna og þurft að fresta nauðsynlegri fjárfestingu í tækjum, búnaði og öðrum innviðum.
Stjórnendur Háskóla Íslands hafa í aðdraganda alþingiskosninga átt gagnlega fundi með öllum stjórnmálaflokkum og upplýst þá um þessa alvarlegu stöðu. Í þeim viðræðum kom fram ríkur skilningur fulltrúa stjórnmálaflokkanna á vandanum og skýr vilji til að bregðast við með auknum fjárveitingum til Háskóla Íslands.
Að óbreyttu getur Háskóli Íslands ekki staðið undir hlutverki sínu í íslensku samfélagi. Augljóst er að langvarandi undirfjármögnun háskólans mun hafa bein áhrif á grunnstoðir samfélagsins og draga jafnframt úr áhuga og möguleikum ungs fólks á að mennta sig og starfa á Íslandi.

